Fótbolti

„Heilinn á honum er á öðru getustigi“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bellamy og Kompany voru samherjar hjá Manchester City hér á árum áður.
Bellamy og Kompany voru samherjar hjá Manchester City hér á árum áður. Vísir/Getty

Framherjinn Craig Bellamy var í skemmtilegu viðtali á dögunum hjá The Athletic þar sem hann fór yfir ferilinn og núverandi starf sitt sem þjálfari hjá Anderlecht. Þá ræddi hann um ofurmennið Vincent Kompany, hinn fullkomna Steven Gerrard og margt fleira.

Bellamy, fyrrum leikmaður liða á borð við Newcastle United, Celtic, West Ham United, Liverpool og Manchester City þjálfar nú U21 lið Anderlecht í Belgíu.

Eftir að hafa spilað 435 leiki sem atvinnumaður og skorað 135 mörk ákvað Bellamy að snúa sér að þjálfun. Eftir að hafa fengið óvænt símtal frá Vincent Kompany, fyrrum fyrirliða Manchester City og núverandi spilandi þjálfara Anderlecht þá stökk Bellamy á tækifærið og er nú staddur í Belgíu.

Þessum ólíku persónuleikum varð óvænt vel til vina er þeir voru hjá Manchester City á sínum tíma.

Um Kompany

„Við náðum einkar vel saman,“ sagði Bellamy en hann og Kompany hittust hjá Man City árið 2009. Þó það hafi verið sjö ára munur á þeim þá tengdu þeir innan sem utan vallar.

„Við höfum áhuga á sömu hlutunum og elskum að tjá okkur. Við ræðum fram og til baka um pólitík og fleira. Við höfum líka svipaðar hugmyndir um fótbolta, við erum báðir miklir aðdáendur Johan Cruyff og Ajax-skólans. Við höfum svo alltaf haldið sambandi, líka eftir að ég fór frá Manchester City.“

„Ég hef aldrei séð neinn leggja jafn hart að sér og Vinnie [Kompany]. Hann gerir sjö hluti í einu. Heilinn á honum er á öðru getustigi. Ég skil ekki hvaðan hann fær alla þessa orku, þegar ég vakna á morgnana er ég með skilaboð frá honum. Ég er farinn að halda að hann sofi ekkert á næturnar, og hann er enn þá að spila. Þetta er geðveiki.“

Um Anderlecht

Fjárhagslega hafa Anderlecht verið betri en félagið skuldar alls 89 milljónir punda í dag. Þá hefur liðið ekki leikið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í hartnær tvo áratugi.

„Við eigum nokkra mjög góða unga leikmenn og mitt hlutverk er að gera þá tilbúna fyrir aðalliðið.“

Efnilegasti leikmaður Anderlecht er hinn 17 ára gamli Jérémy Doku. Þó hann sé nú þegar kominn upp í aðallið félagsins gæti Bellamy enn haft einhver áhrif á feril hans. Bellamy var jú framherji líkt og Doku er.

„Við erum félag sem selur leikmenn áfram, það hefur alltaf verið þannig. En það á við um nær öll félög í Evrópu nema nokkur í ensku úrvalsdeildinni, stærstu tvö liðin á Spáni og mögulega nokkur önnur. Við verðum að skilja hvað við erum,“ segir Bellamy um Anderlecht sem félag. 

Hann fór ekkert í skotgrafir með það að félagið þurfi að búa til og selja unga leikmenn. 

Þannig heldur Anderlecht sér á floti.

Um Gerrard 

Bellamy spilaði á sínum tíma 78 leiki landsleiki fyrir Wales ásamt því að spila með haug af liðum í ensku úrvalsdeildinni. Það er samt aðeins einn leikmaður sem kom til greina þegar hann var spurður út í hver væri besti leikmaður sem hann hefði spilað með.

Og það var ekki Vincent Kompany.

„Steven Gerrard, hann er besti leikmaður sem ég spilaði með á ferlinum. Hann var góður tæknilega, með hægri og vinstri, góð skot, góðar sendingar. Hann var einfaldlega góður í öllu ofan. Ofan á allt þetta var hann svo með rosalegan fótboltaheila.“

Að lokum hrósaði Bellamy einnig Luis Suarez sem og Carlos Tevez en það er ljóst að skaphundurinn frá Wales hefur gaman af skaphundum Suður-Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×