Erlent

Geitur éta illgresi í New York

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Borgaryfirvöld í New York í Bandaríkjunum hafa ráðið til sín nokkuð óvenjulegt starfslið til að eyða illgresi í einum af almenningsgörðum borgarinnar.

Stuyvesant Cove-garðurinn í Manhattan er steinsnar frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Kórónuveirufaraldurinn gerði það að verkum að ekki var hægt að ráða mennskt starfslið til þess að hirða almennilega um garðinn í sumar. Því er allt morandi í illgresi.

Þessar vösku geitur eru aftur á móti nokkuð ódýrar í rekstri. Tuttugu slíkar hafa unnið hörðum höndum að því að éta upp óvelkominn gróður síðustu daga, sagði Candace Thompson, umsjónarmaður garðsins.

„Það tæki mig fáránlega langan tíma að mylta þetta allt. Þessar geitur geta hins vegar étið og kúkað öllum þessum plöntum á þremur dögum. Svo er hægt að nota úrganginn sem áburð til þess að rækta plöntur í vor,“ sagði Thompson við AP.

Borgarbúar virðast nokkuð hrifnir, og jafnvel hissa. Malcolm Gannon, ungum íbúa, þótti til dæmis stórmerkilegt að sjá geitur þótt það væri enginn bóndabær nálægt.

En jafnvel þótt mörgum þyki óvenjulegt að rekast á geitur í miðri stórborg er það nokkuð viðeigandi í þessu tilfelli.

„Það er gott að geta tengst náttúrunni svona í miðri stórborg. Svo er skemmtileg staðreynd að New York-borg hefur stundum verið kölluð Gotham, en það er einmitt gamalt, enskt orð yfir geitabýli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×