Erlent

Óttast að leiðtogi mótmælenda hafi verið handtekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Vitni segjast hafa séð óþekkta menn stinga Mariu Kolesnikovu upp í smárútu og aka með hana burt í miðborg Minsk í dag.
Vitni segjast hafa séð óþekkta menn stinga Mariu Kolesnikovu upp í smárútu og aka með hana burt í miðborg Minsk í dag. Vísir/EPA

Vinir Mariu Kolesnikovu, eins leiðtoga mótmælenda í Hvíta-Rússlandi, óttast að yfirvöld hafi tekið hana höndum. Vitni segja að óþekktir menn hafi gripið hana í miðborg Minsk og ekið með hana burt í smárútu í dag.

Kolesnikova situr í samhæfingarráði hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar sem var stofnað til að taka þátt í viðræðum við Alexander Lúkasjenkó forseta eftir umdeildar kosningar í síðasta mánuði. Mikil mótmæli hafa geisað í landinu vegna þess sem margir landsmenn telja umfangsmikil kosningasvik forsetans sem var endurkjörinn með afgerandi meirihluta samkvæmt opinberum úrslitum.

Reuters-fréttastofan segir að lögreglan í Minsk rannsaki tilkynningar um hvarf Kolesnikovu. Talið er að um 100.000 manns hafi komið saman í Minsk í gær til að krefjast afsagnar Lúkasjenkó forseta.

Innanríkisráðuneytið Hvíta-Rússlands fullyrðir að Kolesnikova hafi ekki verið handtekin, að sögn AP-fréttastofunnar.

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa hótað og handtekið leiðtoga stjórnarandstöðunnar eftir að mótmælin miklu hófust í ágúst. Saksóknarar hófu þannig sakamálarannsókn á samhæfingarráði stjórnarandstöðunnar. Tveir fulltrúar þess voru dæmdir í tíu daga fangelsi fyrir að skipuleggja ólögleg mótmæli í síðustu viku. Olga Kovalkova, annar fulltrúanna, segir að hún hafi verið hvött til að flýja til Póllands og að henni hafi verið hótað lengri fangelsisdómi.

Sviatlana Tsikhanouskaya, helsti keppinautur Lúkasjenkó í kosningunum, flúði til Litháen daginn eftir kosningarnar undir þrýstingi frá stjórnvöldum. Hún segir að hvarf Kolesnikovu sé enn ein tilraun ríkisstjórnar Lúkasjenkó til þess að ógna stjórnarandstöðunni.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, tekur í sama streng og hvetur til þess að Kolesnikovu verði sleppt þegar í stað.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.