Innlent

Stormur, slydda og jafn­vel snjó­koma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það kólnar norðanlands í kvöld og má því búast við slyddu og jafnvel snjókomu á fjallvegum.
Það kólnar norðanlands í kvöld og má því búast við slyddu og jafnvel snjókomu á fjallvegum. Veðurstofa Íslands

Lægðin sem gekk yfir landið í gær stjórnar áfram veðrinu í dag og á morgun, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Lægðin er skammt norður af Melrakkasléttu, hreyfist lítið í dag og beinir til okkar svalara lofti. Á morgun þokast hún svo austur á bóginn, grynnist heldur og þá dregur úr vindi.

Í dag verður vestanátt, víða 8-13 metrar á sekúndu á austurhelmingi landsins og slær þar í storm á stöku stað, einkum með norðausturströndinni og í vindstrengjum við fjöll.

Þá verður rigning víða norðanlands og kólnar með deginum. Undir kvöld eru því líkur á slyddu eða snjókomu á fjallvegum á þeim slóðir. Skúrir sunnan- og vestanlands en þurrt á Austfjörðum. Hiti á bilinu 7-14 stig, hlýjast austantil en 2-7 stig á norðanverðu landinu í kvöld.

Veðurhorfur á landinu:

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 8-15 m/s. Bjart með köflum, en dálítil rigning á láglendi norðan- og austanlands. Hiti 2 til 7 stig, en 8 til 13 stig sunnantil á landinu.

Á miðvikudag:

Fremur hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en norðvestan 8-15 m/s norðaustantil framan af degi. Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna um vestanvert landið um kvöldið. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast vestanlands.

Á fimmtudag:

Suðaustan og austan 10-18 m/s, hvassast norðvestantil. Rigning í flestum landshlutum, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 7 til 13 stig.

Á föstudag:

Austan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast á Vestfjörðum, og rigning um norðanvert landið. Fremur hæg norðlæg átt og bjart með köflum sunnantil. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.