Umfjöllun: Ísland 0-1 England | Strákarnir misstu af góðu tækifæri

Sindri Sverrisson, Smári Jökull Jónsson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Birkir Bjarnason heldur fyrir andlitið eftir vítaklúðrið sitt.
Birkir Bjarnason heldur fyrir andlitið eftir vítaklúðrið sitt. Vísir/Daníel Þór

Baráttuglatt lið Íslands tapaði með sárgrætilegum hætti gegn Englandi, 1-0, með marki Raheem Sterling í lokin á fyrsta leik liðanna í Þjóðadeildinni, á Laugardalsvelli. Englendingar voru manni færri í 20 mínútur og Ísland fékk víti í uppbótartíma.

Eftir markalausan leik í 90 mínútur voru lætin öll í uppbótartíma. Englendingar, sem misstu Kyle Walker af velli með rautt spjald um miðjan seinni hálfleik, fengu víti eftir að skot Raheem Sterling fór í hönd Sverris Inga Ingasonar að mati dómarans.

Ísland fékk víti strax í kjölfarið, eftir að Joe Gomez braut á Hólmberti Aroni Friðjónssyni sem var nýkominn inn á. En Birkir Bjarnason skaut yfir úr vítinu og England hafði afar nauman sigur, gegn íslensku liði sem var án margra lykilmanna frá síðustu árum.

Kári Árnason var með góðar gætur á Harry Kane í leiknum. Hér kljást fyrirliðarnir.vísir/hulda margrét

Guðlaugur Victor magnaður á miðjunni

Englendingar voru mun meira með boltann og stýrðu leiknum í fyrri hálfleik, eins og búast mátti við. Harry Kane kom boltanum í netið strax á 7. mínútu og útlitið svart fyrir Ísland, en segja má að aðstoðardómarinn hafi komið til bjargar því hann dæmdi rangstöðu, sem virtist kolrangur dómur.

Englendingar héldu áfram að sækja og Raheem Sterling var ógnandi, en Hjörtur Hermannsson hafði góðar gætur á honum og naut aðstoðar Jóns Dags Þorsteinssonar sem fékk tækifæri á kantinum. Hjörtur var hægri bakvörður í stað Guðlaugs Victors Pálssonar sem fékk að leika í sinni bestu stöðu á miðjunni og var stórkostlegur í fyrri hálfleiknum, sívinnandi og grjótharður í návígum við ensku gestina auk þess að leiðbeina félögum sínum stöðugt.

Albert Guðmundsson og Kyle Walker en Walker fékk fyrra gula spjaldið sitt fyrir brot á Alberti.

Rétt áður en flautað var til leiks varð breyting á byrjunarliði Íslands vegna meiðsla Kolbeins Sigþórssonar, og kom Albert Guðmundsson inn í hans stað. Albert og Jón Daði Böðvarsson fengu ekki úr miklu að moða og tækifæri Íslands fólust fyrst og fremst í löngum innköstum, aukaspyrnum og hornspyrnum. Albert stal þó boltanum á miðjunni eftir hálftíma leik, og komst að vítateignum áður en Kyle Walker fór aftan í hann og uppskar gult spjald. Aukaspyrna Arnórs Ingva Traustasonar fór rétt framhjá.

Stuðningsmenn við girðinguna

Englendingar komust lítt áleiðis seinni hluta fyrri hálfleiksins, gegn þéttri en hreyfanlegri og vel skipulagðri vörn Íslands, og staðan var markalaus í hléi.

Engir stuðningsmenn máttu vera á leiknum, frekar en öðrum leikjum í Þjóðadeildinni nú í september, en nokkur hópur fólks stóð við girðinguna og fylgdist með leiknum, án þess þó að kyrja neina söngva eða láta mikið í sér heyra.

Walker sendur af velli

Englendingar voru áfram meira með boltann framan af seinni hálfleik en gekk lítið að búa sér til færi eða skapa hættu á nokkurn hátt. Þetta var kannski farið að fara aðeins í skapið á þeim þegar Kyle Walker fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt, fyrir að renna sér í Arnór Ingva eftir að Guðlaugur Victor hafði unnið boltann á miðjum vallarhelmingi Íslands.

Emil Hallfreðsson kom í kjölfarið inn á fyrir Arnór Ingva og Ísland fór yfir í 4-3-3 uppstillingu, með Albert og Arnór Sigurðsson, sem kom inn á skömmu áður, á köntunum. Leikurinn jafnaðist eftir rauða spjaldið en Englendingar voru þó áfram meira með boltann, manni færri, og ætluðu sér áfram þrjú stig. Þeir komust svo yfir í uppbótartíma eins og fyrr segir og höfðu að lokum sigur.

Ísland fer því án stiga og mætir Belgíu ytra á þriðjudagskvöld en Englendingar fara til Kaupmannahafnar og mæta Danmörku. Sigurlið riðilsins kemst í úrslit Þjóðadeildarinnar en neðsta liðið fellur niður í B-deild.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira