Erlent

Krefjast þess að Rússar upplýsi um taugaeitursáætlun sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti tilræðinu gegn Navalní sem hryllilegri árás.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti tilræðinu gegn Navalní sem hryllilegri árás. Vísir/EPA

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) krefst þess að rússnesk stjórnvöld veiti alþjóðlegum eftirlitsmönnum aðgang að upplýsingum um taugaeitrið novichok sem talið er að hafi verið notað til að eitra fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Aðildarríkin segir hann sameinuð í að fordæma tilræðið.

Þýsk stjórnvöld greindu frá því í vikunni að leifar af taugaeitrinu novichok hefði fundist í líkama Navalní sem liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi þar. Navalní kenndi sér meins í flugferð frá Síberíu til Moskvu í síðasta mánuði og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Rússnesk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir það og neitað að rannsaka veikindi hans sem sakamál.

Novichok var einnig notað til þess að eitra fyrir Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Bresk stjórnvöld telja að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi skipað fyrir um tilræðið við Skrípal sem komst lífs af.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fullyrti eftir neyðarfund í dag að það væri hafið yfir allan vafa að Navalní hafi verið byrlað novichok, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir honum. Rússar yrðu að veita Efnavopnastofnun Sameinuðu þjóðanna (OPCW) fulla samvinnu við óháða alþjóðlega rannsókn.

„Við krefjum Rússa einnig um að veita OPCW allar upplýsingar um novichok-áætlun sína,“ sagði Stoltenberg en kröfum hans var tekið fálega á meðal rússneskra þingmanna.

Navalní hefur verið einn ötulasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi undanfarin ár og rekið stofnun gegn spillingu. Hann hefur ítrekað verið handtekinn fyrir að skipuleggja og taka þátt í mótmælum gegn ríkisstjórn Pútín. Yfirvöld meinuðu honum að bjóða sig fram gegn Pútín árið 2018 vegna fjársvikadóms sem Navalní segir að hafi átt sér pólitískar rætur.


Tengdar fréttir

Þvertaka fyrir að hafa eitrað fyrir Navalny

Ríkisstjórn Rússlands þvertekur fyrir að bera á nokkurn hátt ábyrgð á því að eitrað hafi verið fyrir Alexei Navalny, einum helsta stjórnarandstæðingi Rússlands, með taugaeitrinu Novichok.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.