Erlent

Óttast stærðarinnar umhverfisslys í Indlandshafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin í gær. Síðan þá hefur verið reynt að slökkva eldinn og tryggja að hann berist ekki í tanka skipsins.
Þessi mynd var tekin í gær. Síðan þá hefur verið reynt að slökkva eldinn og tryggja að hann berist ekki í tanka skipsins. AP/Flugher Srí Lanka

Verið er að draga olíuflutningaskips sem stendur í ljósum logum frá ströndum Srí Lanka. Óttast er að um 270 þúsund tonn af hráolíu muni enda í Indlandshafi, sem yrði stærðarinnar umhverfisslys. Sjóher Srí Lanka og strandgæsla Indlands reyna að slökkva eldinn. Einn úr 23 manna áhöfn skipsins er dáinn og hafa þeir allir verið fluttir í land.

Skipið, New Diamond, er skráð í Panama og í eigu Porto Emporios Shipping Inc, sem er skráð í Líberíu. Það er 330 metra langt og tuttugu ára gamalt.

Samkvæmt frétt BBC sagði talsmaður sjóhers Srí Lanka að enn sem komið er væri ekki hætta á olíuleka. Ef það gerðist þyrfti ríkið þó án efa alþjóðlega aðstoð. Tveggja metra sprunga hefur sést á skrokki skipsins.

Eldurinn kviknaði í gær og sendi áhöfn skipsins út neyðarkall þegar ljóst var að þeir myndu ekki ná tökum á honum. Þá var skipið staðsett um 60 kílómetra frá austurströnd Srí Lanka. Síðan þá hafði skipið rekið í átt að eyjunni og var því gripið til þess ráðs að draga það lengra á haf út.

Eldurinn kviknaði þegar sprenging varð í vélarrými skipsins og þá dó einn áhafnarmeðlimur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×