Enski boltinn

Vill ekki sjá Messi í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andy Robertson segir að Lionel Messi sé besti leikmaður hann hefur mætt.
Andy Robertson segir að Lionel Messi sé besti leikmaður hann hefur mætt. getty/Matthias Hangst

Fjölmargir fótboltaáhugamenn myndu fagna því að sjá Lionel Messi spila í ensku úrvalsdeildinni. Andy Robertson, leikmaður Englandsmeistara Liverpool, er ekki einn af þeim og vill ekki sjá Messi í enska boltanum.

Messi vill fara frá Barcelona, félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril, og m.a. verið orðaður við Manchester City.

Robertson var spurður út í stöðu Messi á blaðamannafundi í gær. Skotinn viðurkenndi að hann myndi kjósa að Messi héldi kyrru fyrir hjá Barcelona.

„Ég held að Liverpool hafi útilokað að fá hann svo ég vil ekki sjá hann nálægt ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Robertson. „Ég hef mætt honum tvisvar og það voru erfiðustu leikir sem ég hef spilað á ferlinum.“

Leikirnir sem Robertson vísar til voru í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á þarsíðasta tímabili. Messi skoraði tvö mörk í fyrri leiknum á Nývangi sem Börsungar unnu, 3-0. Liverpool sneri dæminu sér í vil í seinni leiknum á Anfield, vann ótrúlegan 4-0 sigur og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Þar vann Liverpool Tottenham með tveimur mörkum gegn engu.

Liverpool vann ensku úrvalsdeildina með miklum yfirburðum á síðasta tímabili en liðið fékk átján stigum meira en City sem endaði í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×