Fótbolti

Enska landsliðið mun krjúpa fyrir leikinn á Laugardalsvelli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Enska landsliðið mun krjúpa fyrir leik sinn gegn Íslandi á morgun.
Enska landsliðið mun krjúpa fyrir leik sinn gegn Íslandi á morgun. Mike Egerton/Getty Images

Enska landsliðið í knattspyrnu kemur hingað til lands í dag. Á morgun mun það mæta Íslandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni. Samkvæmt Sky Sports munu allir leikmenn enska liðsins krjúpa fyrir leik og votta þar með Svört Líf Skipta Máli [e. Black Lives Matter] hreyfingunni virðingu sína.

Þá mun liðið gera það sama er það mætir Dönum á þriðjudaginn.

Í frétt Sky Sports segir að leikmenn hafi rætt saman á St. George´s Park, æfingasvæði enska landsliðsins, og tekið þá ákvörðun í sameiningu að krjúpa fyrir leikinn. Er þetta eitthvað sem flest allir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa gert síðan deildin fór aftur af stað.

Reikna má með að þessu verði haldið áfram langt inn í tímabilið sem hefst um miðjan september.

Enska landsliðið fær þó ekki að bera merki Black Lives Matter-hreyfingarinnar þar sem reglur UEFA – knattspyrnusambands Evrópu – banna öll pólitísk skilaboð eða merki á treyjum landsliða. Hvort hreyfingin sé pólitísk hreyfing er svo annað umræðuefni.

Ísland mætir Englandi á Laugardalsvelli á morgun, laugardag, klukkan 16:00. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkutíma fyrr. Allt í beinni dagskrá á Stöð 2 Sport.

Sýnt verður beint frá öllum leikjum Íslands í Þjóðadeildinni á Stöð 2 Sport. Riðlakeppnin hefst 5. september og lýkur 18. nóvember á þessu ári. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Ísland - England (Laugardalsvöllur) - 5.9.2020 

Belgía - Ísland (Óvíst) - 8.9.2020

Ísland - Danmörk (Laugardalsvöllur) - 11.10.2020

Ísland - Belgía (Laugardalsvölur) - 14.10.2020

Danmörk - Ísland (Parken) - 14.11.2020

England - Ísland (Wembley) - 18.11.2020


Tengdar fréttir

Emil Hallfreðsson áfram hjá Padova

Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson verður áfram í herbúðum ítalska liðsins Padova á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×