Innlent

Þórhallur miðill fær að áfrýja til Hæstaréttar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórhallur Guðmundsson var til umfjöllunar í sjónvarpsþáttunum Brestir um árið þar sem spámiðlar voru til umfjöllunar.
Þórhallur Guðmundsson var til umfjöllunar í sjónvarpsþáttunum Brestir um árið þar sem spámiðlar voru til umfjöllunar. Vísir

Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál Þórhalls Guðmundssonar, oftast nefndur Þórhallur miðill. Landsréttur dæmdi Þórhall í átján mánaða fangelsi í júní fyrir að hafa brotið kynferðislega á ungum karlmanni sem kom til hans í heilunarmeðferð fyrir tíu árum.

Þórhallur lagði fram beiðni um að áfrýja dómnum til Hæstaréttar í byrjun júlí. Hann byggir beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem heimfærsla til refsiákvæðis sé röng. Brot hans hafi ekki verið refsivert þegar það var framið þar sem sá hluti þess er varðar skort á samþykki hafi ekki komið inn í hegningarlög fyrr en fyrir tveimur árum.

Þá hafi hann Landsrétt hafa brotið gegn milliliðalausri sönnunarfærslu þar sem dómurinn hafi byggt á lögregluskýrslum og framburði vitna sem ekki gátu borið um atvik málsins.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að úrlausn um beitingu umrædds ákvæðis í almennum hegningarlögum og lagaskil myndi hafa „verulega almenna þýðingu“. Því verði fallist á beiðni um áfrýjun.

Brotaþoli, sem var tvítugur þegar brotið átti sér stað, lagði fram kæru gegn Þórhalli árið 2016, sex árum eftir atvikið. Hann sakaði Þórhall um að hafa fróað honum án samþykkis hans er hann lá nakinn á nuddbekk. Þórhallur var jafnframt sakfelldur fyrir að beita þolandann ólögmætri nauðung og misnotað þannig traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara. Þórhallur neitaði staðfastlega sök.


Tengdar fréttir

Þórhallur „miðill“ í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Landsréttur staðfesti í dag átján mánaða fangelsisdóm yfir Þórhalli „miðli“ Guðmundssyni vegna kynferðisbrots gegn skjólstæðingi sem kom til hans í heilunarmeðferð fyrir tíu árum. Þórhallur neitaði allri sök í málinu en tekið var tillit til hversu langan tíma málið dróst þegar refsing hans var ákvörðuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×