Íslenski boltinn

Skilur ekki af hverju félagslausir menn eru valdir í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil Hallfreðsson var valinn í íslenska landsliðið þrátt fyrir að vera án félags.
Emil Hallfreðsson var valinn í íslenska landsliðið þrátt fyrir að vera án félags. vísir/bára

Val Eriks Hamrén á íslenska landsliðshópnum fyrir leikina gegn Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni voru til umræðu í Pepsi Max stúkunni í gær.

Sterka leikmenn vantar í íslenska liðið. Aron Einar Gunnarsson fékk ekki leyfi frá Al Arabi til að koma í landsleikina, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson gáfu ekki kost á sér og Ragnar Sigurðsson og Rúnar Már Sigurjónsson eru meiddir.

Tveir leikmenn í landsliðshópnum, Emil Hallfreðsson og Jón Guðni Fjóluson, eru án félags. Tómas Ingi Tómasson furðar sig á að þeir hafi verið valdir.

„Það er flott að aðrir fái tækifæri. Þetta eru akkúrat leikirnir sem á að prufa menn í. Það er flott að þessir fái frí og mæti ferskir í leikinn sem skiptir máli fyrir okkur. En það hefði verið gaman að sjá menn í staðinn fyrir þá sem eru félagslausir. Það að vera félagslaus og valinn í landslið, aftur og aftur er þetta ekki orðið fínt?“ sagði Tómas Ingi.

„Bæði Emil og Jón Guðni eru flottir spilarar en hefði ekki mátt velja þennan,“ bætti Tómas Ingi við og átti þar við Ísak Bergmann Jóhannesson, sautján ára leikmann Norrköping í Svíþjóð. Tómas Ingi, Þorkell Máni Pétursson og Guðmundur Benediktsson voru allir á því að Ísak hefði átt að vera í A-landsliðinu frekar en U-21 árs landsliðinu.

„Þetta kom mér mest á óvart. Sjálfur hefði ég ekki hikað við að velja hann,“ sagði Guðmundur.

„Maður hefði viljað sjá hann fái tækifærið. Ég skil ekki að landsliðsþjálfararnir hafi ekki viljað vera fyrstir til að henda þessum leikjum á hann því ég held að öllum sé ljóst að þessi leikmaður gæti spilað almennilega rullu fyrir íslenska landsliðið.“

Ísland mætir Englandi á Laugardalsvelli laugardaginn 5. september og Belgíu ytra þremur dögum síðar.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um landsliðshópinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×