Erlent

Sextán smitaðir eftir flug fullt af „sjálfselskum kóvitum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvél breska flugfélagsins TUI. Myndin er úr safni.
Flugvél breska flugfélagsins TUI. Myndin er úr safni. Vísir/getty

Sextán farþegar úr flugi breska flugfélagsins TUI milli Bretlands og Grikklands í síðustu viku hafa greinst með kórónuveiruna. Farþegi í umræddu flugi ber því afar illa söguna; segir aðra farþega hafa sýnt af sér vítavert kæruleysi með tilliti til sóttvarna og áhöfnin hafi lítið sem ekkert skipt sér af ástandinu.

Alls voru 193 um borð í flugi TOM6215 frá grísku eyjunni Zante til Cardiff í Wales 25. ágúst síðastliðinn. Af þeim sextán sem greinst hafa með veiruna er talið að sjö hafi þegar verið orðnir smitandi í fluginu.

Bretinn Stephanie Whitfield, farþegi í flugi TOM6215, lýsti reynslu sinni í viðtali á BBC Radio 4 í morgun. Hún sagði marga af farþegunum um borð í vélinni ekki hafa borið grímur og virt sóttvarnareglur að vettugi.

„Fullt af fólki var með grímurnar undir nefinu eða jafnvel undir hökunni. Það tók grímurnar af sér til að tala við vini sína og fóru fram og til baka um ganga vélarinnar grímulausir til að tala við vini,“ sagði Whitfield.

Þá hafi áhöfnin ekki framfylgt sóttvarnareglum og virst kippa sér lítið upp við kæruleysi farþega. Grímuskylda er á flugvöllum og um borð í flugvélum í Bretlandi.

„Flugið var fullt af sjálfselskum „kóvitum“ (e. covidiots) og vanhæfri áhöfn sem sýndi af sér algjört skeytingarleysi,“ sagði Whitfield, sem kvað Covid-sýkingu meðal farþega ekki hafa komið sér á óvart.

Flugfélagið segist harma upplifun Whitfield af fluginu. Atvikið verði rannsakað í þaula. Þá sé „öryggi og velferð farþega og áhafnar“ ætíð í forgangi.

Allir sem voru um borð í flugvélinni hafa verið beðnir um að sæta sóttkví í tvær vikur. Um þrjátíu hafa greinst með kórónuveiruna í Wales í liðinni viku eftir að hafa komið heim frá Zante og búist er við að fleiri greinist á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×