Íslenski boltinn

„Hann hefur greinilega unnið vel í sínum málum og er á mun betri stað í dag“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Alexander Ljubicic fagnar marki sínu á móti Gróttu.
Stefan Alexander Ljubicic fagnar marki sínu á móti Gróttu. Skjámynd/S2 Sport

Stefan Alexander Ljubicic skoraði sitt fyrsta Pepsi Max deildar mark fyrir HK í sigrinum á Gróttu og fékk hrós frá strákunum í Pepsi Max Stúkunni.

Stefan Alexander Ljubicic kom HK í 1-0 í leiknum og skoraði reyndar annað mark í leiknum sem var dæmt af.

HK-liðið þurfti mikið á framlagi að halda frá þessum tvítuga ára strax því margir leikmenn liðsins eru að glíma við meiðsli.

Stefan Alexander kom til HK frá lettneska félaginu Riga FC í júní en hafði áður reynt fyrir sér í neðri deildunum í Englandi. Stefán er sonur Zoran Ljubicic sem lék á sínum tíma með HK í neðri deildunum.

„Við sáum til hans í byrjun móts og það var ekki gott. Hann var þungur á sér og svifaseinn. Greinilega ekki í sérstöku standi. Hann var miklu miklu ferskari í þessum leik og bara í þessu fagni þá fannst mér hann líflegri heldur en í leikjunum í byrjun móts,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

„Hann hefur greinilega unnið vel í sínum málum og er á mun betri stað í dag heldur en hann var þá,“ sagði Atli Viðar.

„Það var flott fyrir hann að skora þetta fyrsta mark og það var smá líf í honum í þessum leik. Hann þarf að halda áfram því hann hefur ekki sýnt mikið fyrr en í þessum leik,“ sagði Davíð Þór Viðarsson.

„Ég held að hann átti sig alveg á því að hann er ekki búinn að sigra heiminn,“ sagði Atli Viðar. „Þetta er ágætis byrjun,“ sagði Davíð Þór.

„Þetta er vonandi vendipunktur fyrir hann,“ sagði Atli Viðar en það má sjá umfjöllun Pepsi Max Stúkunnar um Stefan Alexander Ljubicic og HK-liðið hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan - Stefan Ljubicic og HK umræða



Fleiri fréttir

Sjá meira


×