Erlent

Hvetja Breta til þess að hætta að hamstra

Kjartan Kjartansson skrifar
Tómar hillur í verslun Tesco í London á föstudag. Verslunareigendur líkja kaupæðinu vegna kórónuveirufaraldursins við jólaörtröðina. Svo rammt kveður að því að fólk hamstri nauðsynjar að stærstu verslunarkeðjur landsins hvetja fólk til að róa sig.
Tómar hillur í verslun Tesco í London á föstudag. Verslunareigendur líkja kaupæðinu vegna kórónuveirufaraldursins við jólaörtröðina. Svo rammt kveður að því að fólk hamstri nauðsynjar að stærstu verslunarkeðjur landsins hvetja fólk til að róa sig. AP/Alberto Pezzali

Stærstu verslunarkeðjur Bretlands hvöttu landsmenn til þess að hætta að hamstra matvæli og aðrar vöru í kórónuveirufaraldrinum sem nú gengur yfir. Vara þær við því að ef fólk kaupir meira en það þarf leiði það til þess að aðrir fái ekkert.

Tesco, Sainsbury‘s, Asda, Morrisons, Aldi, Lidl, Coop, Waitrose, M&S, Iceland, Ocado og Costcutter eru á meðal þeirra verslana sem skrifuðu undir auglýsingu sem birtist á vegum samtaka verslunar í breskum dagblöðum í dag.

„Við skiljum áhyggjur ykkar en að kaupa meira en þörf er á getur stundum þýtt að aðrir líða skort. Það er nóg fyrir alla ef við vinnum saman,“ segir í auglýsingunni.

Frá því að kórónuveirufaraldurinn færðist upp á nýtt stig með stórtækum aðgerðum fjölda ríkja í vikunni hafa myndir gengið um samfélagsmiðla af tómum hillum verslana þar sem viðskiptavinir hafa hamstrað vörur eins og klósettpappír, pasta og dósamat, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, fullyrðir að næg matvæli séu til í landinu en að allir yrðu að hegða sér skynsamlega.

„Ef þú ert að kaupa mat til dæmis og klósettpappír þá kaupir þú það sem þú þarft vegna þess að þetta hefur áhrif á aðra,“ sagði ráðherrann í dag.

Bresk stjórnvöld hafa gengið skemur en mörg önnur ríki í viðbrögðum við faraldrinum. Nú er hins vegar talað um að samgöngubann gæti verið sett á þegar um næstu helgi og að eldra fólk verði beðið um að halda sig heima til að forðast smit, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Covid-19-sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur leggst sérstaklega þungt á eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.


Tengdar fréttir

Bretar sagðir ætla að koma á samkomubanni

Samgöngubann gæti tekið gildi á Bretlandi í næstu viku. Hótel- og veitingageirinn óttast að tilveru margra fyrirtækja sé ógnað vegna hrapandi eftirspurnar í miðjum kórónuveiruheimsfaraldri.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.