Íslenski boltinn

„Ég var búin að ákveða að skora“

Sindri Sverrisson skrifar
Barbára fagnar sigurmarkinu.
Barbára fagnar sigurmarkinu. vísir/vilhelm

„Ég var búin að ákveða að skora. Ég var ekki búin að skora neitt í sumar og það kom loksins í dag,“ sagði hetja Selfyssinga, Barbára Sól Gísladóttir, rétt eftir að hafa skorað glæsilegt sigurmark gegn Breiðabliki í kvöld.

Selfoss vann 2-1 sigur, varð fyrsta liðið til að skora mark hjá Breiðabliki í sumar og hvað þá til að taka stig af liðinu, og kom sér í sex stiga fjarlægð frá fallsætunum.

„Þetta er geggjað. Við höfum verið í svolitlu brasi undanfarið en þetta gekk loksins upp í dag. Við erum búnar að hafa góðan tíma til að æfa fyrir þennan leik en það var bara hausinn á okkur sem skilaði þessu alla leið,“ sagði Barbára.

„Ég kann alveg vel á hana“

Barbára gerði sig seka um slæm mistök í aðdraganda þess að Breiðablik komst yfir í kvöld. „Já, þetta kemur fyrir bestu menn,“ sagði Barbára sem bætti heldur betur fyrir mistökin, ekki bara með marki sínu heldur með því að halda Sveindísi Jane Jónsdóttur betur í skefjum en öðrum hefur tekist í sumar.

„Ég kann alveg vel á hana. Ég er búin að vera með henni í yngri landsliðum og það er mjög skemmtilegt að keppa á móti henni. Við erum vinkonur og þetta er alltaf mjög mikil barátta á milli okkar,“ sagði Barbára.

Selfoss er nú með fullt sjálfstraust í 5. sæti með 13 stig, þremur stigum á eftir Fylki og ÍBV og útlitið mun bjartara en við sólarupprás.

„Þetta gerir mjög mikið fyrir okkur. Núna stefnum við bara hærra upp á við. Við viljum vera á toppnum. Þetta er vonandi að smella hjá okkur núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×