Fótbolti

Bayern fyrsta liðið til að vinna alla leiki sína í Meistaradeildinni

Ísak Hallmundarson skrifar
Ótrúlegt ár hjá Bayern Munchen.
Ótrúlegt ár hjá Bayern Munchen. getty/Julian Finney

Bayern Munchen er eitt besta, ef ekki það albesta, fótboltalið heims í dag. Liðið vann Meistaradeild Evrópu í kvöld með 1-0 sigri á Paris Saint-Germain í úrslitaleiknum.

Það sem er magnað við þennan titil Bæjara er að þeir eru fyrsta liðið í sögu Meistaradeildarinnar til að vinna alla leiki sína í keppninni. Liðið vann alla sex leiki sína í riðlakeppninni, þar af 7-2 stórsigur á Tottenham í Lundúnum.

Síðan mætti liðið Chelsea í 16-liða úrslitum, vann fyrri leikinn 3-0 og þann síðari 4-1. Eftir það hélt liðið til Portúgal og niðurlægði Barcelona 8-2 í 8-liða úrslitum og vann Lyon sannfærandi 3-0 í undanúrslitum. Í úrslitaleiknum sjálfum sigraði Bayern PSG 1-0 og fullkomnaði þannig frábært tímabil.

Sögulegur árangur sem seint verður toppaður, en þess má einnig geta að liðið skoraði 43 mörk í ellefu leikjum í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×