Erlent

Hyggst loka verk­smiðjum þar sem starfs­menn hafa mót­mælt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hyggst loka verksmiðjum þar sem starfsmenn hafa tekið þátt í mótmælum.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hyggst loka verksmiðjum þar sem starfsmenn hafa tekið þátt í mótmælum. Getty/ Nikolai Petro

Alexander Lúkasjenkó forseti Hvíta-Rússlands segist ætla að loka þeim verksmiðjum þar sem starfsmenn hafa mótmælt niðurstöðum forsetakosninganna sem fóru fram fyrr í þessum mánuði. Forsetinn hefur gert ítrekaðar tilraunir til að kveða niður mótmælaölduna sem hefur riðið yfir landið.

Lúkasjenkó ýjaði einnig að því í dag að þeir verkamenn sem hafa tekið þátt í mótmælunum yrðu reknir.

„Ef verksmiðjan er ekki starfandi skulum við læsa hliðum hennar frá og með mánudegi, bindum enda á þetta,“ hafði rússneska fréttastofan RIA eftir Lúkasjenkó. „Fólk mun róast og við munum ákveða hverjir fá að vinna.“

Tugir þúsunda Hvít-Rússa hafa mótmælt síðastliðnar tvær vikur frá því að niðurstöður forsetakosninga voru birtar. Margir telja að forsetinn hafi beitt kosningasvindli og krefjast mótmælendur þess að nýjar kosningar verði haldnar. Forsetinn hefur alfarið neitað því að kosningasvindli hafi verið beitt.

Fjöldi verkamanna úr ríkisreknum verksmiðjum hafa tekið þátt í mótmælunum undanfarnar vikur.

Aðal andstæðingur Lúkasjenkó, Svetlana Tsikhanovskaya, sagði í samtali við Reuters í dga að hún liti á sig sem táknmynd breytinga. Tsikhanovskaya flúði til Litháen daginn eftir kosningar og heldur þar til ásamt börnum sínum. Lúkasjenkó sagði í dag, án þess að nefna nokkurn á nafn, að skipuleggjendur mótmælanna „héldu til í nágrannalöndunum“ og nytu pólitísks stuðnings leiðtoga þessara landa.

Tveir leiðtogar nýstofnaðs stjórnarandstöðuráðs í Hvíta-Rússlandi voru yfirheyrðir í gær vegna dómsmáls sem hefur verið höfðað vegna þess sem Lúkasjenkó telur vera valdaránstilraun.


Tengdar fréttir

Lítur á sig sem táknmynd breytinga

Svetlana Tsikhanovskaya, stjórnarandstöðuleiðtogi í Hvíta-Rússlandi sem hefur flúið land, segist líta á sjálfa sig sem táknmynd breytinga og telur hlutverk sitt vera að tryggja að nýjar kosningar verði haldnar.

Lúkasjenko fengið nóg og vill að mótmælin verði kveðin niður

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur fyrirskipað að mótmælaalda sem staðið hefur yfir í landinu undanfarna tíu daga verði kveðin niður með snarhasti. Mótmælin hófust eftir að Lúkasjenkó var endurkjörinn í fimmta sinn í forsetakosningum.

Sakar stjórnar­and­stöðuna um valda­ráns­til­raun

Alexander Lúkasjenkó, sitjandi forseti Hvíta-Rússlands, hefur sakað andstæðinga sína um tilraun til valdaráns. Stjórnarandstæðingar hafa nú stofnað ráð sem ætlað er að skipuleggja aðgerðir stjórnarandstöðunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×