Enski boltinn

Mourinho vill fá Bale „heim“ til Lundúna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mourinho vill ólmur fá Bale til liðs við sig. Hér eru þeir árið 2011 þegar Tottenham mætti Real Madrid í Meistaradeild Evrópu.
Mourinho vill ólmur fá Bale til liðs við sig. Hér eru þeir árið 2011 þegar Tottenham mætti Real Madrid í Meistaradeild Evrópu. Jasper Juinen/Getty Images

José Mourinho, þjálfari Tottenham Hotspur, vill losa Gareth Bale úr prísundinni í Madrídarborg og fá hann „heim“ til Lundúna. Bale hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið og það er ljóst að Zinedine Zidane, þjálfari Real, hefur engan áhuga á að nýta krafta Walesverjans á næstu leiktíð.

Bale hefur lítið sem ekkert spilað eftir að fótboltinn á meginlandi Evrópu hófst að nýju eftir fyrstu bylgju kórónufaraldursins. Þá var Bale ekki í Meistaradeildarhópi Real en liðið datt út fyrir Manchester City.

Real vill losa Bale frá félaginu en leikmaðurinn er á það góðum launum að hann virðist ekki tilbúinn að yfirgefa félagið nema fá meirihluta þeirra í starfslokasamning.

Það er ljóst að Tottenham er ekki tilbúið að borga Bale sömu laun og hann er með hjá Real Madrid. Mögulega þyrfti Real að gera það sama og þeir gerðu með James Rodriguez og Barcelona gerði með Philippe Coutinho. Það er að lána Bale – mögulega til tveggja ára – og halda áfram að borga hluta launa hans.

Mourinho virðist allavega æstur í að fá Bale til liðsins og það er ljóst að stuðningsmenn Tottenham myndu taka vel á móti Bale ef hann ákveður að fara aftur „heim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×