Enski boltinn

Liverpool getur ekki lengur orðið sófameistari á laugardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool menn þurfa að bíða aðeins lengur eftir því að tryggja sér enska meistaratitilinn.
Liverpool menn þurfa að bíða aðeins lengur eftir því að tryggja sér enska meistaratitilinn. Getty/Chloe Knott
Manchester City spilar ekki í ensku úrvalsdeildinni í kvöld eins og áætlað var eftir að leik liðsins var frestað. Það gæti seinkað því að Liverpool tryggi sér enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í þrjátíu ár.

Leik Arsenal og Manchester City í kvöld var frestað eftir að nokkrir leikmenn Arsenal voru settir í sótthví. Þeir voru í kringum Evangelos Marinakis, eiganda gríska félagsins Olympiacos, eftir Evrópudeildarleik félaganna 27. febrúar síðastliðinn.

Evangelos Marinakis greindist með kórónuveiruna og lét vita af því í gær. Í framhaldinu fór Arsenal að skoða hvaða leikmenn höfðu umgengist hann í kringum leikinn. Þeir leikmenn voru síðan allir settir í sóttkví.





Þar sem að það eru þegar liðnir þrettán dagar frá því að leikmennirnir hittu Evangelos Marinakis og ef þeir sína engin merki um að vera með kórónuveiruna þá ættu þeir að losna úr sóttkví á föstudaginn. Allt bendir því til þess að leikur Arsenal á móti Brighton um helgina fari því fram.

Manchester City átti að spila tvo leiki áður en kemur að næsta deildarleik hjá Liverpool liðinu. Þar sem Liverpool vantar bara sex stig í viðbót til að verða enskur meistari þá hefði Liverpool verið búið að vinna titilinn ef City myndi tapa báðum þessum leikjum.

Manchester City spilar við Burnley um helgina. Tapi City þeim leik þá gæti Liverpool tryggt sér enska meistaratitilinn með sigri á Everton á Goodison Park á mánudagskvöldið. Vinni City þá þarf Liverpool að vinna Everton og svo Crystal Palace í leiknum á eftir til að gulltryggja titilinn.

Takist það ekki þá bíður Liverpool leikur á móti Manchester City á Ethiad leikvanginum í byrjun aprílmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×