Innlent

Útgöngubann tekur gildi á Spáni í fyrramálið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Í fyrramálið tekur útgöngubann gildi á Spáni. Fólk er beðið um að halda sig innandyra og vera ekki á ferli nema til að sinna nauðsynlegum hlutum á borð við matar- og lyfjakaup. Icelandair íhugar nú að setja á neyðarflug frá Alicante til Íslands annað kvöld.

Á myndbandinu heyrist í kallkerfi lögreglubíls sem keyrir um á Tenerife. Skilaboðin sem óma um eyjuna eru þau að fólk eigi að halda sig innandyra.

Spænsk stjórnvöld tilkynntu í gær 15 daga útgöngubann sem tekur gildi á mánudagsmorgun. Fólk á því að halda sig innan veggja heimilisins og fær ekki að vera á ferli nema til að sinna nauðsynlegum hlutum á borð við matar- og lyfjakaup.

„Lögreglan var að tilkynna það í hátalarakerfi lögreglubíls að allir ættu að drífa sig heim þannig það eru fáir á ferli. Ég fór út í morgun og það er búið að loka búðum og veitingastöðum þannig að þetta er skrítið ástand,“ sagði Pálmi Guðmundsson, íbúi á Tenerife.

Hann segir að þrátt fyrir útgöngubann sé fólk rólegt og taki ástandinu af yfirvegun. Verslanir hafa gert ráðstafanir til að stemma stigu við smithættu.

„Í apótekum er komin hálfgerð varargirðing. Það er búið að setja dót og stóla og fleira þannig að menn komist ekki nálægt afgreiðsluborðinu. Það er því komin ákveðin fjarlægð á milli viðskiptavinar og sölumanns,“ sagði Pálmi.

„Ég ætla að halda áfram að vinna því ef ég geri það ekki hvernig á ég þá að borða? Ég þarf að borga allt, efni, skatta,“ sagði Dionsio Garcia.

Icelandair íhugar nú að setja á neyðarflug frá Alicante til Íslands annað kvöld. Verið er að kanna áhuga fólks fyrir slíku flugi. Um fast verð er að ræða og kostar ferðin 80 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×