Innlent

Grunaður árásarmaður á Kópaskeri einnig á gjörgæslu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu um málið fyrir skemmstu.
Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu um málið fyrir skemmstu. Vísir/Vilhelm

Maðurinn sem grunaður er um að hafa stungið annan mann með hnífi á Kópaskeri á föstudagskvöld liggur nú á gjörgæslu. Ekki var unnt að taka af honum skýrslu í gær, né heldur leiða hann fyrir dómara þar sem flytja þurfti hann rænulítinn úr fangageymslu lögreglunnar á sjúkrahús. Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá lögreglu.

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir rannsókn málsins enn á frumstigi og að málsatvik liggi ekki ljós fyrir. Þrennt var handtekið aðfaranótt laugardags, en nú hefur tveimur þeirra, manni og konu, verið sleppt úr haldi þar sem ekki er talið að þau tengist árásinni.

Brotaþoli liggur enn á gjörgæslu og ekki hefur verið unnt að taka skýrslu af honum. Samkvæmt heimildum Vísis var hann stunginn allt að sex sinnum, en er þó ekki í lífshættu. Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn liggur einnig á gjörgæslu og er vaktaður af lögreglu.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið á vettvangi, en reiknað er með að rannsókninni ljúki í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×