Erlent

Lýstu yfir neyðarástandi í Kaliforníu

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Skemmtiferðaskipið Grand Princess hefur verið stöðvað þar sem það er talið tengjast minnst tveimur smitum.
Skemmtiferðaskipið Grand Princess hefur verið stöðvað þar sem það er talið tengjast minnst tveimur smitum. AP/Scott Strazzante

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Kalíforníuríki í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar en í gær dó fyrsti Kaliforníubúinn úr sjúkdómnum, sjötíu og eins árs gamall maður í Sacramento. Hann hafði undirliggjandi sjúkdóm og var nýkominn heim úr ferð með skemmtiferðaskipi. Skemmtiferðaskipið hefur verið stöðvað þar sem það er talið tengjast minnst tveimur smitum.

Skipið er nú statt undan ströndum San Francisco en Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, segir minnst ellefu farþega og tíu úr áhöfn skipsins sýna einkenni Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur.

Heilbrigðisstarfsmenn ætla að kanna alla farþega og áhöfn skipsins. Um 2.500 manns voru um borð í skipinu sem fór frá Kaliforníu, til Mexíkó, til Hawaii og aftur til Kaliforníu. Verið er að leita að fjölda farþega sem höfðu farið frá borði í San Fancisco.

Tala látinna í Bandaríkjunum stendur nú í ellefu manns og smitaðir eru hundrað og fimmtíu hið minnsta, í sextán ríkjum. Verst er ástandið í Washington ríki, þar sem tíu af dauðsföllunum ellefu hafa átt sér stað.

Flestir þeirra sem hafa dáið í Washington ríki voru íbúar dvalarheimilinu Life Care Center í úthverfi Seattle. Nú á að opna rannsókn á dvalarheimilinu og hvernig veiran hefur dreifst þar. Embættismenn segja mögulegt að veiran hafi verið á dreifingu um Washington ríki í einhverjar vikur.

Mike Pence varaforseti, sem fer fyrir baráttunni gegn sjúkdómnum í Bandaríkjunum, segir að til standi að fjölga prófunum á fólki um allt land.

Alls hafa 90 þúsund manns nú smitast af veirunni og þar af eru rúmlega 80 þúsund innan landamæra Kína. Rúmlega þrjú þúsund hafa látið lífið, bróðurparturinn í Kína.


Tengdar fréttir

Neyðarfjármagn frá Alþjóðabankanum vegna COVID-19

Í ljósi þess að kórónaveiran breiðist hratt út um heiminn og hefur þegar greinst í rúmlega sextíu löndum hefur Alþjóðabankinn ákveðið að verja nú þegar tólf milljörðum bandarískra dala – tæpum 1600 milljörðum íslenskra króna – í stuðning við þróunarríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×