Fótbolti

20 dagar í Rúmeníuleikinn: Sumir leikmenn Rúmena gætu farið bæði á EM og ÓL í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ianis Hagi er einn af leikmönnum A-landsliðs Rúmena sem gætu spilað á EM og á ÓL í sumar slái liðið út Íslands og fari alla leið í umspilinu.
Ianis Hagi er einn af leikmönnum A-landsliðs Rúmena sem gætu spilað á EM og á ÓL í sumar slái liðið út Íslands og fari alla leið í umspilinu. Getty/David S. Bustamante

Rúmenska 21 árs landsliðið komst í undanúrslit á EM 2019 og tryggði sér um leið sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þetta gæti orðið mjög stórt sumar fyrir rúmenska knattspyrnu ef þeir komast bæði á EM og á Ólympíuleika.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Rúmenar voru einmitt síðast með á Ólympíuleikunum þegar þeir fóru síðast fram í Tókýó árið 1964. Ólympíusætið er tryggt en þeir þurfa að vinna umspilið til að vera líka með á EM alls staðar í sumar.

21 árs landslið Rúmena gaf þjóð sinni hins vegar ástæðu til að líta björtum augum á framtíðina þegar liði komst í undanúrslit á EM U21 sumarið 2019. Rúmenar urðu á endanum að sætta sig við 4-2 á móti Þjóðverjum í undanúrslitunum eftir að hafa unnið sinn riðil án þess að tapa leik.

Leikmenn 23 ára yngri auk þriggja eldri leikmanna eru gjaldgengir í landslið þeirra á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.

George Puscas var markhæstur Rúmena á Evrópumótinu sumarið 2019 með fjögur mörk en aðeins Þjóðverjinn Luca Waldschmidt skoraði fleiri mörk á mótinu eða sjö. Ianis Hagi og Florinel Coman skoruðu báðir tvö mörk í mótinu en allt eru þetta framtíðarstjörnur landsliðsins.

Mirel Radoi, nýr þjálfari A-landsliðsins og fyrrum þjálfari 21 árs landsliðsins, mun stýra rúmenska liðinu á Ólympíuleikunum.

Hann ætti því að geta samið við sjálfan sig um hvort að einhverjir leikmannanna fái að vera með í báðum mótum en það er kannski aðeins mikið af því góða. Möguleikinn gæti verið til staðar en íslenska landsliðið ætlar að auðvelda þeim þá ákvörðun með því að slá þá út úr umspilinu.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×