Fótbolti

29 dagar í Rúmeníuleikinn: Ársmiðahafarnir eru heppnustu menn dagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir stuðningsmenn íslenska landsliðsins vilja örugglega fá miða á leikinn.
Margir stuðningsmenn íslenska landsliðsins vilja örugglega fá miða á leikinn. Getty/Sefa Karacan

Miðasala á leik Íslands og Rúmeníu í umspili undankeppni EM 2020 hefst í dag en aðeins útvaldir mega þó kaupa miða á leikinn í dag.

Þrír miðasölugluggar eru í gangi fyrir leikinn og sá fyrsti opnar í dag. Miðasalan í dag er aðeins fyrir þá sem keyptu ársmiða fyrir undankeppni EM 2020. Þeir geta byrjað að kaupa miða klukkan 12.00.

Leikurinn mikilvægi fer fram 26. mars og verður leikinn á Laugardalsvelli. Sigurvegari viðureignarinnar mætir Búlgaríu eða Ungverjalandi í leik um laust sæti í lokakeppni EM 2020.

Ársmiðahafarnir mega þó ekki kaupa meira en fjóra miða hver. 1750 ársmiðar seldust fyrir undankeppni EM 2020 þar af þeir þúsund fyrstu samdægurs og þeir fóru í sölu. Ársmiðahafarnir keyptu miða á alla fimm heimaleiki íslenska liðsins í undankeppninni.



Þrjú miðaverð eru í gangi eða miðar sem kosta 3500 krónur, 5500 krónur og 7500 krónur sem eru dýrustu miðarnir. Helmings afsláttur verður í boði fyrir sextán ára og yngri.

Annar gluggi miðasölunnar opnar klukkan 12.00 á föstudaginn en hann er fyrir þá sem keyptu haustmiða fyrir undankeppni EM 2020.

Almenn miðasala á leikinn hefst síðan ekki fyrr en á hádegi mánudaginn 2. mars. Þá gætu verið fáir miðar eftir nýti allir fyrrnefndir réttinn sinn.

Laugardalsvöllurinn tekur 9.775 manns í sæti en hluti af þeim fjölda eru sæti sem fara ekki í sölu.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×