Fótbolti

28 dagar í Rúmeníuleikinn: Nýr þjálfari Rúmena er aðeins einu ári eldri en Kári Árna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikur Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvellinum 26. mars verður fyrsti leikurinn þar sem Mirel Radoi stýrir A-landsliðinu.
Leikur Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvellinum 26. mars verður fyrsti leikurinn þar sem Mirel Radoi stýrir A-landsliðinu. Getty/Srdjan Stevanovic

Þjálfari Rúmena endaði sextán ára leikmannaferilinn sinn hjá liði þeirra Aron Einars Gunnarssonar og Heimis Hallgrímssonar í Katar. Ísland mætir rúmenska landsliðinu í umspili um sæti á EM 2020 eftir 28 daga.

Þjálfari rúmenska landsliðsins heitir Mirel Radoi og hann stýrir landsliðinu í fyrsta sinn á Laugardalsvellinum 26. mars næstkomandi. Mirel Radoi var þjálfari 21 árs landsliðs Rúmena en tók við A-landsliðinu í lok nóvember á síðasta ári.

Mirel Radoi er fæddur árið 1981 og heldur upp á 39 ára afmælið sitt aðeins fjórum dögum fyrir leikinn á móti Íslandi (22. mars). Þetta þýðir að Kári Árnason, elsti leikmaður íslenska landsliðsins, er aðeins einu ári yngri en þjálfari Rúmena.

Vonandi gefa leikmenn rúmenska landsliðsins þjálfara sínum ekki afmælisgjöf á Laugardalsvellinum 26. mars en sigurvegari leiksins kemst í hreinan úrslitaleik eitt laust sæti í úrslitakeppni EM 2020.

Mirel Radoi skrifaði undir tveggja ára samning sem þjálfari rúmenska A-landsliðsins eftir að hafa náð frábærum árangri með 21 árs landsliðið. Undir hans stjórn komst 21 árs landsliðið í undanúrslit á EM sumarið 2019. Radoi stýrir landsliði Rúmena að minnsta kosti fram yfir undankeppni HM 2022.

Rúmenska knattspyrnusambandið ætlar að veðja á það að Mirel Radoi takist að taka alla efnilegu leikmennina sem voru hjá honum í 21 árs landsliðinu og hjálpa þeim að festa sig í A-landsliðinu. Honum tókst að búa til mjög sterkar liðsheild hjá 21 árs liðinu

Mirel Radoi spilaði mest sem miðvörður á sínum ferli sem leikmaður en hann var lengst hjá Steaua Búkarest eða frá 2000 til 2009. Radoi endaði ferilinn sinn í Katar þar sem hann náði að spila með fjórum mismunandi félögum á áru um 2009 til 2015.

Síðustu leikina spilaði Mirel Radoi síðan með liði Al-Arabi árið 2015 en það er liðið sem fyrrum landsliðsþjálfari Heimir Hallgrímsson þjálfar og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilar með.

Mirel Radoi átti líka farsælan landsliðsferil og náði að spila 67 landsleiki á árunum 2000 til 2010. Síðasti landsleikur hans var á móti Frökkum fyrir fram 79 þúsund manns á Stade de France 9. október 2010.

Þjálfaraferill Mirel Radoi hófst í heimalandinu strax eftir að fótboltaskórnir hans fóru upp á hillu. Hann þjálfaði bæði FCSB og FC Arges áður en hann tók við 21 árs landsliðinu í mars 2018. Undir hans stjórn vann 21 árs landsliðið átta af fjórtán leikjum og tapaði aðeins þremur.
   
Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.