Fótbolti

22 dagar í Rúmeníuleikinn: Formaður KSÍ skoraði sjálfsmark síðast þegar Rúmenar komu í Laugardalinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson í leik með íslenska landsliðinu.
Guðni Bergsson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Paul Popper

Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, var fyrirliði íslenska landsliðsins, þegar Rúmenar mættu síðast í Laugardalinn fyrir að verða 24 árum síðan.

Eftir 22 daga tekur Ísland á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

A-landslið Rúmena lék síðast á Laugardalsvelli 9. október 1996 eða fyrir 23 árum og fimm mánuðum síðan.

Rúmenska liðið var geysiöflugt á þessum tíma með menn eins og Gheorghe Hagi, Gheorghe Popescu, Dorinel Munteanu og Dan Petrescu í fararbroddi. Aðeins tveimur árum fyrr hafði liðið slegið í gegn á HM í Bandaríkjunum 1994 og fyrr um sumarið tók liðið þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins í Englandi

Rúmenar sýndu styrk sinn í leiknum í Laugardalnum og unnu hann 4-0. Formaður Knattspyrnusambands Íslands í dag var þarna í miðri íslensku vörninni og á ekki góðar minningar frá þessum leik.

Guðni Bergsson kom þeim óvart sjálfur á bragðið með því að skora sjálfsmark á 21. mínútu. Athygli vekur þó að íslensku fjölmiðlarnir neituðu að skrá þetta sem sjálfsmark á fyrirliðann.

Íslensku fjölmiðlamennirnir skráðu markið á Viorel Dinu Moldovan en það fer ekkert á milli mála á myndbandsupptökum frá leiknum að það var Guðni sem sendi þarna boltann í eigið mark.

Því hefur verið breytt á flestum stöðum sem segja frá úrslitum í þessari undankeppni en þó ekki öllum. Fyrsta íslenska heimildin um sjálfsmarkið er líklega í bók Sigmundar Ó. Steinarssonar „Saga landsliðs karla“ sem kom út árið 2014 en Sigmundur skráir markið þar sem sjálfsmark hjá Guðna Bergssyni.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×