Íslenski boltinn

Hafa nú spilað í þrettán og hálfan klukkutíma án þess að fá á sig mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miðvörðurinn Kristín Dís Árnadóttir og markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir hafa spilað allar 810 mínúur Blika í Pepsi deild kvenna í sumar.
Miðvörðurinn Kristín Dís Árnadóttir og markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir hafa spilað allar 810 mínúur Blika í Pepsi deild kvenna í sumar. Vísir/Samsett

Blikakonur stóðust metapressuna í gærkvöldi og gott betur. 7-0 sigur á Þór/KA þýðir að liðið er nú það eina í sögu úrvalsdeildar kvenna sem hefur spilað níu fyrstu leiki sína á Íslandsmótinu án þess að fá á sig mark.

Breiðablik sló 23 ára gamalt met KR-liðsins á 23. mínútu leiksins í gær en KR-konur héldu hreinu fram í fyrri hálfleik í níunda leik sínum sumarið 1997.

Blikaliðið hefur nú haldið marki sínu hreinu í samtals 810 mínútur og eru því búnar að spila í þrettán og hálfan klukkutíma án þess að fá á sig mark. Á sama tíma hefur liðið skorað 42 sinnum í mark mótherjanna.

Það var við hæfi að miðvörðurinn Kristín Dís Árnadóttir opnaði markareikning Blikaliðsins í gær en hún hefur spilað allar þessar 810 mínútur ásamt markverðinum Sonný Láru Þráinsdóttur. Kristín Dís var að skora sitt fyrsta deildarmark í sumar en samt með komin með fleiri mörk en andstæðingarnir í ár.

Metið var reyndar aldrei í hættu á Kópavogsvellinum í gær. Fyrsta marktilraun Þór/KA kom nefnilega ekki fyrr en á 60. mínútu þegar Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir átti skot af löngu færi rétt yfir markið. Það munaði þó litlu fjórum mínútum síðar þegar Blikakonur björguðu á línu. Hulda Ósk Jónsdóttir átti síðan skot rétt yfir markið í uppbótatíma leiksins en annars var þetta enn eini rólegi leikurinn hjá Sonný Láru Þráinsdóttur í markinu.

Samkvæmt tölfræði Wyscout fyrir leikinn í gær þá er hún búin að fá á sig 24 skot í leikjunum en hefur varið þau öll. Langmest var að gera á móti Val þar sem hún varði alls tíu skot.

Helena Ólafsdóttir lýsti leik Breiðabliks og Þór/KA á Stöð 2 Sport í gær en hún var einmitt fyrirliði KR-liðsins sem átti gamla metið sem var 742 mínútur spilaðar án þess að fá á sig fyrsta markið á tímabili.

Næst á dagskrá hjá Breiðabliki er að komast yfir þúsund mínútur en því náðu þær sjálfar sumarið 2015 þegar Blikaliðið lék í 1163 mínútur án þess að fá á sig mark eða frá leik á móti KR í þriðju umferð fram í leik á móti Selfossi í sextándu umferð.

Til þess að ná því þá þarf Breiðabliksliðið að halda hreinu í næstu þremur leikjum sínum og gott betur. Þær komast yfir þúsund mínútur með því að halda hreinu fram í þriðja leik frá deginum í dag.

Metið gæti því fallið undir lok fjórða leiks liðsins sem er samkvæmt leikjaplaninu í dag leikur á móti Þór/KA á útivelli. Norðanstúlkur gætu því lent í því að Blikarnir settu tvö met í leikjum á móti þeim í sumar.

Miðað við þróun mála í sumar vegna kórónuveirufaraldursins er erfitt að horfa of langt fram í tímann og því verður bara að koma í ljós hvernig leikjaröð Blikanna verður á endanum.

Pepsi Max deild kvenna verður að sjálfsögðu til umfjöllunar í kvöld hjá Helenu Ólafsdóttur og sérfræðingum hennar í Pepsi Max mörkum kvenna. Þátturinn hefst klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.