Íslenski boltinn

Sonný Lára og Blikakonur geta sett nýtt met eftir 23 mínútur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sonný Lára Þráinsdóttir og félagar hennar í Breiðabliksliðinu hafa enn ekki fengið á sig mark í Pepsi Max deild kvenna í sumar.
Sonný Lára Þráinsdóttir og félagar hennar í Breiðabliksliðinu hafa enn ekki fengið á sig mark í Pepsi Max deild kvenna í sumar. Vísir/Vilhelm

Breiðablik fær Þór/KA í heimsókn í Kópavogsvöllinn í Pepsi Max deild kvenna en þetta er einn af leikjunum sem var frestað þegar Blikaliðið fór í sóttkví fyrr í sumar.

Breiðablik hefur unnið fyrstu átta leiki sína með markatölunni 35-0 og á því enn eftir að fá á sig mark í sumar.

Aðeins eitt lið hefur spilað lengur inn í Íslandsmótið í úrvalsdeild kvenna án þess að fá á sig eitt einasta mark.

KR-konur eiga metið því þær fengu ekki á sig mark í átta fyrsta leikjum sínum sumarið 1997. Það var Valskonan Ásgerður Hildur Ingibergsdóttir sem náði loksins að koma boltanum framhjá Sigríði Fanneyju Pálsdóttur í marki KR.

Markverðir KR héldu marki liðsins hreinu fyrstu 742 mínúturnar á Íslandsmótinu 1997. Sigríður Fanney Pálsdóttir spilaði sjö af leikjunum átta en Þóra Björg Helgadóttir stóð í markinu í fyrsta leiknum.

Þegar komið var fram í níundu umferð var markatala KR-liðsins 33-0 og liðið var með 24 stig af 24 mögulegum.

Valsliðið skoraði reyndar fjögur mörk hjá Sigríði í þessum leik en hún fékk aðeins tvö mörk samtals á sig í öllum hinum þrettán leikjum tímabilsins. KR vann samt leikinn 7-4 þrátt fyrir að vera 2-0 undir í hálfleik.

Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Breiðabliksliðsins, hefur staðið í marki liðsins í öllum þessum átta deildarleikjum í sumar. Hún þarf að halda marki sínu hreinu í 23 mínútur á móti Þór/KA í kvöld til þess að Blikaliðið eignist þetta magnaða met.

Leikur Breiðabliks og Þór/KA hefst klukkan 18.00 í kvöld en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Á sama tíma fer fram leikur Fylkis og ÍBV í Árbænum en hann verður sýndur beint á Vísi. Engir áhorfendur eru leyfðir á leikjunum vegna sóttvarnarreglna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×