Erlent

Bláu vega­bréfin snúa aftur í Bret­landi í næsta mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Priti Patel er innanríkisráðherra Bretlands.
Priti Patel er innanríkisráðherra Bretlands. Breska innanríkisráðuneytið

Vegabréf með blárri kápu verða gefin út í Bretlandi í fyrsta sinn í þrjátíu ár í næsta mánuði. Frá þessu segir í tilkynningu frá breska innanríkisráðuneytinu.

Síðustu áratugi hafa Bretar gefið út vegabréf með vínrauðri kápu, en sökum nýlegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefur verið ákveðið að snúa aftur til þeirra bláu.

Útgáfa vegabréfa með blárri kápu hófst í Bretlandi árið 1921, en horfið var til vínrauðra árið 1988 þegar ákveðið var að aðildarríki ESB skyldu samræma útlit vegabréfa.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, segir að með því að hefja útgáfu blárra vegabréfa á nú verði vegabréfin aftur samofin breskri þjóðarvitund.

Vínrauðu vegabréfin, sem einnig eru merkt Evrópusambandinu á kápunni, verða þó áfram gild þar til að þau renna út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×