Erlent

Hefur ekki farið út úr húsi í þrjá daga vegna Co­vid-19 veirunnar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Anna. S. Bergmann Helgadóttir er búsett í Mílanó þar sem hún stundar nám í viðskipta- og markaðsfræði með áherslu á miðlun tísku.
Anna. S. Bergmann Helgadóttir er búsett í Mílanó þar sem hún stundar nám í viðskipta- og markaðsfræði með áherslu á miðlun tísku. AÐSEND

Íslendingur sem búsettur er í Mílanó segir íbúa á Ítalíu afar hrædda vegna Covid-19 veirunnar. Hún hefur ekki farið út úr húsi í þrjá daga og pantar mat og vatn heim af netinu. Samnemendur hennar hafa flúið upp í fjöll eða til heimalanda sinna vegna ástandsins. Þriðja dauðsfallið er staðfest á Ítalíu af völdum veirunnar.

Ítölsk stjórnvöld hafa gripið til neyðaraðgerða til að bregðast við mestu útbreiðslu Covid-19 veirunnar í Evrópu til þessa, nær 152 smit hafa verið staðfest á Ítalíu en þriðja dauðsfallið var staðfest þar í landi skömmu fyrir fréttir.

Anna. S. Bergmann Helgadóttir er búsett í Mílanó þar sem hún stundar nám. Hún segir mikla óvissu ríkja á Norður-Ítalíu. 

„Það er mjög mikil hræðsla yfir öllum og mikil óvissa um hvað gerist næst, allir eru mjög kvíðnir. Sameigendur mínir eru annað hvort búnir að flýja upp í fjöll og ætla að einangra sig þar og svo ætla einhverjir að fljúga til heimalandsins,“ sagði Anna S. Bergmann Helgadóttir, nemi í viðskipta- og markaðsfræði með áherslu á miðlun tísku. 

Sjálf hefur Anna ekki farið út úr húsi í þrjá daga. Hún segir afar fáa á ferli en ferðafrelsi um fimmtíu þúsund íbúa Í Langbarða- og Venetohéraði á Norður-Ítalíu hefur verið skert verulega og fólk beðið um að halda kyrru fyrir heima. Búið er að loka öllum skólum í Mílanó en skólinn sem Anna stundar nám við verður lokaður til fyrsta mars.

„Ég á nóg af mat og vatni. Ég pantaði mér það á netinu frá matvöruverslun. Ég fæ vörurnar afhendar seinna í dag. Það eru allir að gera það sama. Gera ráðstafanir. Ég hef heyrt að búðarhillurnar séu að tæmast. Mér líður hreint út sagt alveg hræðilega. Ég er með kvíðahnút í maganum og það er aðallega út af þessari óvissu. Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta er. Ég veit ekki hvort ég megi fara út þannig að þetta er rosalega óþægilegt,“ sagði Anna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.