Erlent

Forsætisráðherra Malasíu segir af sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mahathir Mohamad hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum.
Mahathir Mohamad hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum. vísir/getty

Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, hefur sagt af sér. Að því er fram kemur á vef Guardian kemur afsögn hans í kjölfar ásakana um að hann hafi svikið loforð um að færa völdin til arftaka síns, Anwar Ibrahim.

Mahathir er 94 ára gamall og elsti forsætisráðherra heims. Hann vann óvæntan sigur í þingkosningum í Malasíu árið 2018 eftir að mikið spillingarmál skók UMNO-flokkinn (United Malays National Organisation) sem verið hafði verið við völd í landinu í áratugi.

Mahathir fór fram í kosningunum 2018 fyrir Bersatu-flokkinn. Anwar, sem áður hafði verið pólitískur andstæðingur Mahathir, myndaði bandalag með honum í kosningunum 2018 gegn loforði um að hann yrði forsætisráðherra síðar á kjörtímabilinu.  

Ekki er ljóst hvort að afsögn Mahathir nú leiði til þess að boðað verði til kosninga í landinu en Anwar setti fram ásakanir sínar um svikin loforð eftir að fulltrúar úr bandalagi þeirra Mahathir funduðu með félögum úr UMNO-flokknum um helgina.

Sagði Anwar að flokkur Mahathir og svikarar sem þar væru, væru að skipuleggja breytingar á bandalaginu sem á endanum myndi þýða að hann fengi ekki forsætisráðherrastólinn.

„Við vitum að það er verið að reyna að brjóta niður PH-bandalagið og mynda nýja ríkisstjórn,“ sagði Anwar en PH stendur fyrir Pakatan Harape eða Vonarbandalagið.  

Mahathir hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum. Hann var leiðtogi UMNO-flokksins frá 1981 til 2003 og forsætisráðherra Malasíu á sama tímabili.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.