Erlent

Réttað yfir fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel var tekið á móti Razak þegar hann kom að dómshúsinu í Kúala Lúmpúr í dag.
Vel var tekið á móti Razak þegar hann kom að dómshúsinu í Kúala Lúmpúr í dag. Vísir/EPA
Najib Razak, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, lýsti sig saklausan af öllum ákærum um að hafa dregið að sér jafnvirði meira en milljarðs króna úr opinberum fjárfestingarsjóði. Í heildina er Razak sakaður um að hafa stolið tugum milljarða úr sjóðnum 1MDB.

Málið sem var tekið fyrir í dag er það fyrsta af nokkrum sem varða fjárdrátt úr 1MDB. Það varðar um tíu milljónir dollara, jafnvirði um 1,2 milljarða króna, sem Razak á að hafa dregið að sér úr SRC International, sem tilheyrði 1MDB. Hann er ákærður fyrir peningaþvætti, trúnaðarbrest og misbeitingu valds.

Alls á Razak að hafa stolið um 681 milljón dollurum úr fjárfestingarsjóðnum, jafnvirði um 83 milljarða íslenskra króna. Saksóknarar fullyrða að Razak hafi notað fjárfestingarsjóð ríkisins til þess að fjármagna íburðarmikinn lífsstíl. Rosmah Mansor, eiginkona hans, á einnig yfir höfði sér ákærur vegna spillingar.

Hópur stuðningsmanna Razak tók á móti honum fyrir utan dómshúsið í Kúala Lúmpúr í dag. Báðu þeir fyrir honum og kölluðu „Lengi lifi Najib“, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Yfirvöld í Malasíu hafa einnig ákært bandaríska fjárfestingabankann Goldman Sachs og saka hann um að hafa svindlað á fjárfestum með því að safna fé fyrir 1MDB. Forsvarsmenn bankans hafa vísað allri sök á bug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×