Erlent

Fordæmalaus engisprettuplága veldur usla í Afríku og Asíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Milljarðar engisprettna herja nú á fjölda ríkja í Austur-Afríku og vestanverðri Asíu.
Milljarðar engisprettna herja nú á fjölda ríkja í Austur-Afríku og vestanverðri Asíu. Vísir/EPA

Uppskera í austanverðri Afríku og vestanverðri Asíu er í hættu vegna gríðarlegs engisprettufaraldurs sem herjar á fjölda landa þar. Sameinuðu þjóðirnar biðla til ríkja heims um aukin fjárframlög til að verjast plágunni.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) segir að hungursneyð gæti vofað yfir Austur-Afríku fái ekki frekara fjármagn og biður um 62 milljónir dollara, jafnvirði tæpra átta milljarða íslenskra króna. Qu Dongyu, yfirmaður stofnunarinnar, segir að næstu vikur eigi eftir að skipta sköpum um hvort takist að halda faraldrinum í skefjum.

Mesta hættan er talin á ferðum í löndum austanverðrar Afríku, Jemen, Persaflóaríkjum, Íran, Pakistan og á Indlandi. Í löndunum þremur sem hafa orðið verst úti til þessa, Kenía, Eþíópíu og Sómalíu, ætlar FAO að þurfi að úða um 100.000 hektara ræktarlands með skordýraeitri í hverju landi fyrir sig, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Löndin skortir búnað og mannskap til þess að glíma við pláguna. Þau þurfa farartæki, flugvélar, öryggisbúnað fyrir fólk, talstöðvar og GPS-tæki svo eitthvað sé nefnt. Sérfræðingar segja að mesta árangur beri að úða eitri úr lofti og á jörðu og að fylgjast stöðugt með svermunum þegar þeir ferðast um.

Engispretturnar éta líkamsþyngd sína af fæðu á hverjum degi og fjölga sér svo hratt að talið er að fjöldi þeirra gæti fjögurhundruðfaldast fyrir júní.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.