Erlent

Telja rauðar pöndur tvöfaldar í roðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Tveir rauðpönduhúnar í dýragarði í Zagreb í Króatíu. Báðar tegundir pöndunnar eru taldar í bráðri útrýmingarhættu.
Tveir rauðpönduhúnar í dýragarði í Zagreb í Króatíu. Báðar tegundir pöndunnar eru taldar í bráðri útrýmingarhættu. Vísir/EPA

Vísindamenn segjast hafa staðfest grun sinn um að rauðar pöndur sem eru innfæddar í Asíu séu í raun tvær ólíkar tegundir en ekki ein. Uppgötvunin þýði að aðgerðir til að vernda tegundirnar sem eru þegar í útrýmingarhættu séu enn brýnni en ella.

Lengi hefur verið talið á grundvelli útlits þeirra að tvö afbrigði rauðra panda séu til. Vísindamenn hefur hins vegar skort beinharðar sannanir fyrir því. Erfðarannsóknir á pöndunum hefur nú leitt í ljós að þær skiptast í raun í tvær tegundir og er það rakið til þess að fljót tvístraði stofninum fyrir um 250.000 árum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Kínverska rauðar pöndur eru þannig með rauðari feld og röndótta hringi á skottinu en rauðar Himalajapöndur eru með hvítleitari fés. Rauðar pöndur lifa í skóglendi í fjöllum Kína, Indlands, Bútans og Búrma.

Aðeins nokkur þúsund rauðar pöndur eru eftir og fer þeim fækkandi. Veiðar og tap búsvæða ógnar tilvist þeirra og segja vísindamenn nýjustu uppgötvunina undirstrika mikilvæg verndunaraðgerða, sérstaklega fyrir rauðu Himalajapönduna. Stofn hennar sé minni og erfðafræðilegur fjölbreytileiki tegundarinnar sé takmarkaðri en þeirrar kínversku.

Þrátt fyrir nafnið er rauða pandan ekki náskyld risapöndunni. Hún er lítið spendýr sem líkist birni, lifir í trjám og þrífst á bambusi. Dýrin eru vernduð í öllum ríkjunum sem þær lifa í. Engu að síður halda ólöglegar veiðar áfram til að seðja markað fyrir feldina í suðvesturhluta Kína. Hattar úr feldi þeirra eru taldir lukkugripir fyrir nýgift hjón í Kína.

Veiðar og tap búsvæða ógna rauðu pöndunni í Asíu.Vísir/EPA

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.