Erlent

Minnst sex látist í Evrópu vegna Ciara

Eiður Þór Árnason skrifar
Bæjarstarfsmenn hreinsa upp tré sem féll á götum Brussel eftir storminn Ciara.
Bæjarstarfsmenn hreinsa upp tré sem féll á götum Brussel eftir storminn Ciara. Vísir/EPA

Minnst sex hafa látist á meginlandi Evrópu vegna stormsins Ciara sem hefur nú færst frá Bretlandseyjum þar sem hann olli miklum usla.

Stormurinn, sem færir sig austur yfir Evrópu, hefur fært með sér mikið fárviðri og rigningu með þeim afleiðingum að hundruð þúsunda eru nú án rafmagns og víða eru dæmi um miklar samgöngutruflanir í fjölmörgum ríkjum álfunnar.

Sjá einnig: Farþegar grétu um borð í vél Icelandair og neituðu að snúa aftur til Íslands

Kona og fimmtán ára dóttir hennar létust í Póllandi á dögunum þegar þak skíðaleigu fauk af og lenti á hópi fólks. Þrír aðrir slösuðust í atvikinu sem átti sér stað á vetrardvalarstað nálægt landamærum Póllands og Slóvakíu.

Í Svíþjóð drukknaði maður þegar seglbát hans hvolfdi á stöðuvatninu Fegen sunnarlega í Svíþjóð. Manninum skolaði á land stuttu áður en hann lést en ekkert hefur spurst til annarrar manneskju sem vitað er að var einnig um borð.

Í Þýskalandi lést ökumaður flutningabíls þegar hann keyrði á flutningavagn sem verkafólk notaði til að safna saman óveðursrústum á hraðbraut í ríkinu Hesse.

Þá lést ökumaður norðarlega í Slóveníu þegar tré féll á bifreið og annar í Tékklandi þegar tré lenti sömuleiðis á bifreið hans á ferð með þeim afleiðingum að hann fór út af vegi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×