Enski boltinn

Pochettino vill ólmur snúa aftur

Sindri Sverrisson skrifar
Mauricio Pochettino þarf að bíða líkt og Svala.
Mauricio Pochettino þarf að bíða líkt og Svala. vísir/getty

Mauricio Pochettino bíður og vonar að hann muni snúa sem fyrst aftur í ensku úrvalsdeildina í fótbolta en hann hefur verið án starfs síðan að Tottenham lét hann fara í nóvember.

Pochettino ræddi málin í hlaðvarpsþætti Natalie Pinkham hjá Sky Sports en vildi ekki ræða um nein ákveðin félög í þessu sambandi. Hann hefur meðal annars verið orðaður við stjórastarfið hjá Manchester United sem og hjá Arsenal áður en Mikel Arteta var ráðinn í desember.

„Í sannleika sagt þá þætti mér æðislegt að komast til starfa í ensku úrvalsdeildinni. Það verður erfitt, ég veit það, og í augnablikinu snýst þetta um að bíða og sjá hvað gerist,“ sagði Argentínumaðurinn.

„Núna þarf maður að hugsa um að vinna úr sínum málum, hugsa svolítið um sjálfan sig, og vera svo tilbúinn því að í fótboltanum getur alltaf eitthvað gerst og þá þarf maður að vera klár í slaginn. Ég er tilbúinn og bíð eftir nýrri áskorun. Ég hef sjálfstraustið og trú á að næsta verkefni verði frábært,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×