Enski boltinn

Telur Klopp ekki vera stjóra ársins

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp hefur haft ærna ástæðu til að fagna á þessari leiktíð.
Jürgen Klopp hefur haft ærna ástæðu til að fagna á þessari leiktíð. vísir/getty

Liverpool hefur ekki tapað leik á tímabilinu og er með 22 stiga forskot á toppi deildarinnar en þó eru ekki allir á því að Jürgen Klopp eigi skilið að vera útnefndur knattspyrnustjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Gamla Arsenal-goðsögnin Lee Dixon segir í viðtali við sjónvarpsstöð úrvalsdeildarinnar að hann telji að Chris Wilder, stjóri Sheffield United, verðskuldi meira en aðrir að fá útnefninguna. Wilder hefur náð mögnuðum árangri með nýliðana sem eru í bullandi baráttu um Meistaradeildarsæti — sitja í 5. sæti og eru aðeins tveimur stigum á eftir Chelsea.

„Það má segja að hann hafi gert enn betur en Jürgen Klopp hefur gert,“ sagði Dixon sem er afar hrifinn af því sem er í gangi hjá Sheffield United:

„Það virðist allt anga þarna af erfiðisvinnu og það er alveg ljóst að menn verða að leggja svona mikla vinnu í þetta. Það er ekki eitthvað sem menn fá hrós fyrir því menn eiga að leggja mikla vinnu í þetta. En það hvernig þeir spila, þeirra taktík, hann hefur komið mörgum andstæðingum á óvart með því. Þess vegna tel ég að hann [Wilder] ætti að vera efstur á listanum,“ sagði Dixon.

Chris Wilder er með Sheffield United í 5. sæti, fyrir ofan lið á borð við Manchester United, Arsenal og Tottenham.vísir/epa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×