Erlent

Nóbelsverðlaunahafi og fyrrum leiðtogi loftslagsmála látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Pachauri stýrði vísindanefnd SÞ um loftslagsbreytingar í þrettán ár.
Pachauri stýrði vísindanefnd SÞ um loftslagsbreytingar í þrettán ár. Vísir/EPA

Rajendra K. Pachauri, fyrrverandi formaður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, er látinn, 79 ára að aldri. Pachauri vann til friðarverðlauna Nóbels fyrir störf sín en starfsferli hans lauk í skugga ásakna um kynferðislega áreitni gegn konum.

Orku- og auðlindastofnun Indlands sem Pachauri stýrði um áratuga skeið tilkynnti um andlát hans í dag. Banamein hans var ekki gefið upp en hann hafði nýlega gengist undir hjartaaðgerð að sögn indverskra fjölmiðla.

Pachauri stýrði vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) frá 2002 til 2015. Hann og aðrir fulltrúar IPCC hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2007 fyrir að stuðla að aukinni þekkingu á loftslagsbreytingum af völdum manna. Í formannstíð Pachauri kynnti nefndin vísindaskýrslur um líklegar afleiðingar breytinganna sem voru grundvöllurinn að Parísarsamkomulaginu sem þjóðir heims skrifuðu undir árið 2015.

Árið 2009 kom Pachauri til Íslands í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta, og hélt opinn fyrirlestur um loftslagsmál í Háskóla Íslands.

Ásakanir um kynferðislega áreitni urðu til þess að Pachauri hætti störfum fyrir Orku- og auðlindastofnunina og vísindanefnd SÞ árið 2015. Tæplega þrítug kona sem vann fyrir stofnunina sakaði hann um að hafa reynt við hana á klúrinn hátt og sent henni klámfengna tölvupósta og skilaboð. Pachauri hafnaði ásökununum og hélt því fram að brotist hefði verið inn í tölvu hans. Annar starfsmaður stofnunarinnar sakaði hann hins vegar um svipað framferði, að sögn New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×