Enski boltinn

Di María segist hafa verið neyddur í sjöuna hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Di María brosti breitt þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður United sumarið 2014.
Di María brosti breitt þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður United sumarið 2014. vísir/getty

Ángel Di María segir að hann hafi nánast verið neyddur til að vera með treyjunúmerið sjö hjá Manchester United.

Því fylgir ansi mikil pressa að vera númer sjö hjá United enda hafa nokkrir af bestu leikmönnum í sögu félagsins verið með það númer á bakinu. Má þar nefna Eric Cantona, Cristiano Ronaldo, David Beckham og Bryan Robson.

Di María segir að það ekki verið hans ákvörðun að vera númer sjö eftir að hann kom til United frá Real Madrid sumarið 2014.

„Þegar ég kom sá ég að númer ellefu var laust. Ég var með það númer þegar ég var yngri og vildi fá það. Hjá Real Madrid var ellefan í notkun og því tók ég númerið 22,“ sagði Di María.

„Hjá United létu þeir mig hafa treyju númer sjö. Ég hafði ekkert val. Ég hefði viljað vera númer ellefu eins og hérna [hjá Paris Saint-Germain].“

Eftir eitt tímabil hjá United var Di María seldur til PSG. Argentínumaðurinn hefur þrisvar sinnum orðið franskur meistari með PSG.

Síðan Ronaldo yfirgaf United 2009 hafa ýmsir reynt fyrir sér í treyju númer sjö en með afar takmörkuðum árangri. Alexis Sánchez fékk t.a.m. sjöuna þegar hann var keyptur frá Arsenal. Hann skoraði aðeins fimm mörk í 45 leikjum fyrir United og er núna á láni hjá Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×