Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Fannst við sýna yfirburði í leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Karl var ánægður með flest allt í leik ÍA gegn Fylki.
Jóhannes Karl var ánægður með flest allt í leik ÍA gegn Fylki. vísir/hag

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Fylki og að sjálfsögðu sigurinn, 3-2.

„Mér fannst við spila leikinn þannig að við áttum skilið að vinna hann. Þótt þetta hafi verið dramatískt undir lokin fannst mér við gera ansi margt vel í leiknum. Við vörðumst á köflum vel gegn sprækum framherjum Fylkis. Það er erfitt að eiga við þá, þeir sköpuðu ekki mörg færi en skoruðu samt tvö mörk sem ég er ekki ánægður með,“ sagði Jóhannes Karl við Vísi eftir leik.

„En við skoruðum þrjú mörk, hefðum getað skorað fleiri og ég er virkilega sáttur með það.“

Skagamenn héldu boltanum vel í leiknum í dag og það er áberandi hversu mikið þeir hafa bætt sig á því sviði.

„Mér fannst við stjórna leiknum, líka í fyrri hálfleik. Þá hefðum við getað verið aðeins þolinmóðari áður en við leituðum að úrslitasendingunni. Við héldum boltanum mjög vel. Ég veit ekki hvort það sást en völlurinn var erfiður en við reyndum samt að spila fótbolta og gerðum það vel. Mér fannst við sýna yfirburði í leiknum í dag,“ sagði Jóhannes Karl.

Eftir að hafa varla verið með lengst af seinni hálfleinum jafnaði Fylkir þegar sex mínútur voru eftir. Og gestirnir fengu eitt ágætis færi eftir það en ÍA náði að knýja fram sigur.

„Mér fannst það ekki vera sanngjarnt en þeir gefast aldrei upp og náðu að hnoða inn jöfnunarmarki. En að sama skapi má segja um okkur stráka sem höfðu trú á því sem þeir voru að gera, héldu áfram og náðu verðskuldað í þriðja markið,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×