Erlent

Hélt 23 börnum í gíslingu eftir að hafa boðið þeim í „af­mælis­veislu“

Sylvía Hall skrifar
Lögreglustöðin í Farrukhabad.
Lögreglustöðin í Farrukhabad. Vísir/Getty

Eftir tíu tíma lögregluaðgerðir var Subhash Batham skotinn til bana á heimili sínu í indversku borginni Farrukhabad. Batham hafði haldið 23 börnum í gíslingu eftir að hafa talið þeim trú um að hann væri að halda afmælisveislu fyrir ársgamla dóttur sína.

Lögreglumenn höfðu reynt að fá Batham til þess að láta börnin laus og stóðu viðræður yfir í um það bil tíu klukkustundir. Þegar það bar ekki árangur neyddust þeir til þess að brjóta sér leið inn í bygginguna þar sem hann var skotinn til bana.

Kona Batham flúði vettvang en varð fyrir árás borgarbúa sem grýttu hana til dauða. Að sögn lögreglu var kastað í hana steinum og múrsteinum. Hún hafði alvarlega áverka á höfði og hafði misst mikið blóð þegar hún var færð á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum.

Kenndi nágrönnum um handtöku í morðmáli 

Batham hafði haldið börnunum í kjallara hússins að því er fram kemur á vef The Times of India. 22 börnum á aldrinum sex mánaða til fimmtán ára var bjargað og þeim í kjölfarið komið í öruggt skjól. Batham hafði sleppt einu barni fyrr, sex mánaða gamalli stúlku, og var hún látin laus eftir sjö klukkustundir.

Í kjallaranum fannst töluvert magn skotvopna en Batham hafði reynt að skjóta á lögreglumenn þegar þeir brutu sér leið inn í húsið.

Í samtali við BBC lýsir blaðamaðurinn Deepak Kumar Srivastava aðstæðum á vettvangi. Hann segir íbúa hverfisins hafa verið óttaslegna alla nóttina, en gíslatökunni lauk rétt eftir miðnætti. Hann segir Batham hafa skipulagt gíslatökuna sem hefnd fyrir handtöku í morðmáli.

„Hann trúði því að íbúarnir bæru ábyrgð á því að hann hafi verið handtekinn fyrir morð og vildi hefna sín,“ sagði Srivastava en Batham hafði verið látinn laus gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×