Enski boltinn

Bournemouth samþykkir tilboð Sheffield | Hvað verður um Henderson?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ramsdale í leik gegn Manchester City.
Ramsdale í leik gegn Manchester City. EPA-EFE/Dave Thompson

Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur enska B-deildarfélagið Bournemouth – sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á dögunum – samþykkt tilboð Sheffield United upp á 18.5 milljónir punda í enska markvörðinn Aaron Ramsdale.

Hinn 22 ára gamli Ramsdale þótti standa sig vel milli stanganna hjá Bournemouth á nýafstöðnu tímabili þó svo að félagið hafi fallið. Vegna fallsins sem og kórónufaraldursins þarf félagið að selja eitthvað af sínum stærstu nöfnum. Nú þegar hefur varnarmaðurinn Nathan Aké verið seldur til Manchester City.

Það sem gerir þessi vistaskipti Ramsdale áhugaverð er hvað þau þýða fyrir framtíð Dean Henderson. Sá hefur varið mark Sheffield með miklum sóma undanfarin tvö ár en hann hefur verið á láni frá Manchester United.

Henderson sjálfur telur sig nægilega góðan til að spila fyrir Manchester United en Ole Gunnar Solskjær – þjálfari liðsins – virðist ekki vilja bekkja David De Gea þó sá spænski hafi gert full miið af mistökum undanfarin misseri.

Henderson vill spila með liði sem tekur þátt í Evrópukeppni því hann telur það auka líkur sínar á að slá Jordan Pickford út sem aðalmarkvörð enska landsliðsins. Það er því ljóst að hann hefur ekki áhuga á að fara aftur til Manchester United til þess eins að sitja á bekknum.

Vitað er að bæði Chelsea og Tottenham Hotspur horfa hýru auga til markvarðarins en Frank Lampard hefur enga trú á Kepa Arrizabagala og þá verður Willy Caballero samningslaus á næstu dögum.

Þá virðist José Mourinho vilja markvörð sem hentar leikstíl sínum betur heldur en hinn franski Hugo Lloris.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.