Fótbolti

Meistaradeildarmartröð Börsunga náði hámarki í gærkvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikurinn í gær bætist ofan á martraðir Messi gegn Roma og Liverpool undanfarin tvö ár.
Leikurinn í gær bætist ofan á martraðir Messi gegn Roma og Liverpool undanfarin tvö ár. Vísir/Getty/EPA

Spænska stórveldið Barcelona mátti þola 8-2 tap gegn Bayern Munich í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Er þetta þriðja árið í röð þar sem Börsungar falla úr leik á sársaukafullan hátt. Ef til vill er það Barcelona-lið sem við öll þekkjum komið á endastöð. 

Allavega ef marka má leikinn í gær.

Eftir 4-1 sigur á Roma á Nou Camp – hinum magnaða heimavelli sínum – þá virtust Börsungar búnir að bóka farmiða sinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu vorið 2018. Rómverjar virtust þó ekki hafa fengið minnisblaðið, mögulega var það einfaldlega á spænsku. 

Lokatölur í Róm voru 3-0 heimamönnum í vil og fór Roma fór því í undanúrslit þökk sé útivallamarkareglunni. Messi sjálfur mætti í viðtal áður en næsta tímabil hófst og sagði að þetta myndi ekki gerast aftur. Liðið hefði lært sína lexíu og myndu ekki falla úr keppni á slíkan hátt aftur. Félagið þyrfti og ætti að gera betur.

Ári síðar flugu Börsungar inn í undanúrslitin og aftur unnu þeir 3-0 á heimavelli. Að þessu sinni var það Liverpool sem lá í valnum. Það virtist sem Messi ætlaði að uppfylla loforð sitt en lærisveinar Jurgen Klopp eru lítið fyrir það að leggja árar í bát.

Leikmenn Liverpool léku ef til vill sinn besta leik á mögnuðu tímabili er liðin mættust á Anfield. Á sama tíma voru Börsungar andlausir og hreint út sagt skelfilegir frá A til Ö.

Liverpool var 3-0 yfir og stefndi í framlengingu þegar þeir unnu hornspyrnu undir lo leiks. Hægri bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold tók spyrnuna fljótt, Börsungar sofnuðu á verðinum og Divock Origi skráði sig í sögubækur Liverpool-borgar.

Lokatölur 4-0 og annað árið í röð datt Barcelona út eftir að hafa beðið afhroð á útivelli.

Undanfarin tvö tímabil gátu Börsungar hins vegar huggað sig við það að þeir lönduðu spænska meistaratitlinum. Eitthvað sem þeir gerðu ekki í ár.

Ernesto Valvarde var sagt upp störfum er liðið sat á toppi deildarinnar. Í hans stað kom Quique Setien og síðan þá hefur allt legið niður á við hjá Messi og félögum. Liðið gaf Real Madrid titilinn á silfurfati og síðan beið þeirra afhroð allra afhroða gegn Bayern í Meistaradeildinni.

Vegna kórónufaraldursins var aðeins einn leikur í stað tveggja. Fór hann fram í Lisbon í Portúgal þar sem Meistaradeildinni mun ljúka þann 23. ágúst.

Það er erfitt að útskýra leik gærdagsins. Bæjarar nýttu sér alla veikleika Börsunga og  hefðu eflaust átt að skora enn fleiri mörk. Það sem verra er að mörgum leikmönnum Börsunga virtist allt að nær sama hvað var að gerast á vellinum. 

Rúsínan í pylsuendanum fyrir Bæjara var svo frammistaða varamannsins Philippe Coutinho en hann er á láni hjá félaginu frá Barcelona. Hann skoraði tvívegis ásamt því að leggja eitt upp í ótrúlegum 8-2 sigri Bayern.

Gullaldartímabil Börsunga virðist svo sannarlega lokið. Þó svo að liðið hafi beðið afhroð undanfarin tvö ár þá verður þetta seint toppað. Hvað tekur við er hins vegar óvíst. Messi er að komast á aldur, Setien virðist engan veginn ná til leikmanna liðsins, Suarez virðist á förum og lykilmenn á borð við Sergio Busquets og Gerard Pique eru orðnir gamlir.

Þá hafa leikmannakaup liðsins engan veginn gengið upp undanfarin ár. Hvort Börsungar verða yfir höfuð í baráttu um titilinn á komandi árum verður einfaldlega að koma í ljós en eins og skáldið sagði þá er alltaf dimmast rétt fyrir dögun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×