Bæjarar niðurlægðu Börsunga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Müller skorar fjórða mark Bayern München gegn Barcelona.
Thomas Müller skorar fjórða mark Bayern München gegn Barcelona. getty/Michael Regan

Bayern München vann stórsigur á Barcelona, 2-8, í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Þetta var nítjándi sigur Bæjara í röð í öllum keppnum.

Thomas Müller og Coutinho skoruðu tvö mörk hvor fyrir Bayern og Ivan Perisic, Serge Gnabry, Joshua Kimmich og Robert Lewandowski sitt markið hver. Bayern mætir annað hvort Manchester City eða Lyon í undanúrslitunum á miðvikudaginn.

David Alaba (sjálfsmark) og Luis Suárez gerðu mörk Barcelona sem var hreinlega niðurlægt í Lissabon í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn í 74 ár sem Börsungar fá á sig átta mörk í leik.

Byrjunin á leiknum var ótrúleg. Bayern komst yfir á 4. mínútu þegar Müller skoraði eftir sendingu frá Lewandowski.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Alaba sjálfsmark og jafnaði fyrir Barcelona. Skömmu síðar varði Manuel Neuer frá Suárez úr dauðafæri og fyrirgjöf Lionels Messi fór í stöngina.

Á 21. mínútu komst Bayern aftur yfir. Perisic skoraði þá með föstu skoti sem fór af varnarmanni Barcelona og fætinum á Marc-André Ter Stegen og í netið.

Sex mínútum síðar kom Gnabry Bayern í 1-3 eftir sendingu Leons Goretzka inn fyrir vörn Barcelona. Müller skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark Bæjara á 31. mínútu. Staðan 1-4 í hálfleik, Bayern í vil.

Suárez minnkaði muninn á 57. mínútu. Hann lék þá skemmtilega á Jerome Boateng og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Sex mínútum síðar fór Alphonso Davies hrikalega illa með Nelson Semedo, sendi boltann út í teiginn á hinn bakvörð Bayern, Kimmich, sem skoraði fimmta mark liðsins.

Á 75. mínútu kom Coutinho inn á gegn liðinu sem hann er í láni frá og hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt á síðasta stundarfjórðungi leiksins.

Coutinho lagði sjötta mark Bayern upp fyrir Lewandowski á 82. mínútu. Þetta var fjórtánda mark Pólverjans í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Hann hefur skorað í öllum leikjum sínum í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Coutinho skoraði svo síðustu tvö mörkin og fullkomnaði stórkostlegan leik Bayern sem er fyrsta liðið sem skorar átta mörk í leik í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Lissabon 23. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira