Erlent

Fjórir látnir í ó­veðrinu á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri.
Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri. AP

Að minnsta kosti fjórir hafa látið lífið í miklu óveðri sem herjað hefur á austurhluta Spánar síðustu sólarhringa. Mikill vindur og öldugangur hefur valdið röskun þegar kemur að samgöngum og opinberri þjónustu.

Flugvellinum í Alicante var lokað um tíma vegna óveðursins sem hafði áhrif á um tvö hundruð flug.

Erlendir fjölmiðlar segja að viðbúnaður sé mikill í um þrjátíu héruðum á Spáni og víða í suðurhluta Frakklands en óveðrið, sem gengur undir nafninu Gloria, mun ná þangað í dag.

Fréttir hafa borist af því að tveir hafi látist úr ofkælingu nærri Valencia, einn maður þegar hann fékk þakplötu í höfuðið í Avila og þá lét einn maður lífið í umferðinni í Asturias þar sem slysið var rakið sérstaklega til óveðursins.

Vindhraðinn hefur mælst 32 metrar á sekúndu víðs vegar í austurhluta Spánar þar sem skólum hefur víða verið lokað. Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri.

Reiknað er með að óveðrið standi alveg til morguns, en veturinn á Spáni það sem af er hefur verið óvenjulega harkalegur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.