Erlent

Þriðjungur fanga í Kanada frumbyggjar

Kjartan Kjartansson skrifar
Frumbyggjastúlkur syngja fyrir íshokkíleik í Manitoba í Kanada. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frumbyggjastúlkur syngja fyrir íshokkíleik í Manitoba í Kanada. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Endurskoðandi fangelsismála í Kanada segir þá staðreynd að hátt í þriðji hver fangi í landinu sé frumbyggi þrátt fyrir að aðeins 5% landsmanna séu frumbyggjar sé „skrípaleikur“. Óvenjuhátt hlutfall frumbyggja innan fangelsa landsins rekur hann til fátæktar og fordóma lögreglu.

Í nýrri og harðorðri skýrslu endurskoðandans kemur fram að hlutföllin séu skökkust í Manitoba, Saskatchewan og Alberta þar sem 54% fanga eru frumbyggjar. Lægst var hlutfallið í Quebec (15%) en þar var það engu að síður mun hærra en hlutfall frumbyggja af íbúum, að sögn The Guardian.

Til viðbótar eru frumbyggjar líklegri en aðrir til að vera sendir í hámarksöryggisfangelsi og að verða fyrir skaða innan fangelsisveggjanna, bæði af eigin og annarra völdum. Þeir eru jafnframt líklegri en aðrir fangar til að sæta einangrunarvist. Frumbyggjakonur standa enn hallari fæti. Um 42% allra kvenfanga í Kanada eru frumbyggjar.

Hlutfall frumbyggja í fangelsum Kanada hefur farið hækkandi. Þannig hefur frumbyggjum í fangelsi fjölgað um 44% frá 2010 á meðan öðrum Kanadabúum hefur fækkað um 13,7% á sama tíma.

Ivan Zinger, endurskoðandi fangelsismála, segir í skýrslu sinni að brýnna aðgerða sé þörf til að leysa það sem hann kallar þrálátasta og mikilvægasta mannréttindamálið í Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×