Enski boltinn

Hólmar Örn í ensku úrvalsdeildina?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er Hólmar Örn á leiðinni í ensku úrvalsdeildina?
Er Hólmar Örn á leiðinni í ensku úrvalsdeildina? Vísir/Getty

Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður Levski Sofia og íslenska landsliðsins, er mögulega á leiðinni í ensku úrvalsdeildina áður en félagaskiptaglugginn þar í landi lokar þann 1. febrúar.

Samkvæmt vefmiðlinum 90min er Hólmar Örn undir smásjánni hjá AFC Bournemouth en félagið er í harðri  fallbaráttu sem stendur. Hólmar Örn hefur staðið sig einkar vel með Levski Sofia í búlgörsku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð. Alls hefur hann leikið 15 leiki og skorað þrjú mörk.

Þá var á sínum tíma á mála hjá West Ham United frá árunum 2008-2011, sem einnig leikur í ensku úrvalsdeildinni, án þess þó að leika fyrir félagið. Á þeim tíma fór Hólmar meðal annars á lán til Cheltenham Town í ensku D-deildinni sem og Roeselare í Belgíu. Þaðan lá leið hans til VfL Bochum í Þýskalandi, Rosenborg í Noregi, Maccabi Haifa í Ísrael og loks Levski Sofia í Búlgaríu.

Varnarlína Bournemouth er þunnskipuð þessa dagana og er Eddie Howe, þjálfari liðsins, í leit að nýjum miðverði. Hvort Hólmar Örn verði fyrir valinu verður að koma í ljós en hann yrði þá þriðji Íslendingurinn í úrvalsdeildinni. Fyrir eru þeir Gylfi Þór Sigurðsson hjá Everton og Jóhann Berg Guðmundsson hjá Burnley.

Bournemouth er sem stendur í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.