Enski boltinn

Hólmar Örn í ensku úrvalsdeildina?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er Hólmar Örn á leiðinni í ensku úrvalsdeildina?
Er Hólmar Örn á leiðinni í ensku úrvalsdeildina? Vísir/Getty

Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður Levski Sofia og íslenska landsliðsins, er mögulega á leiðinni í ensku úrvalsdeildina áður en félagaskiptaglugginn þar í landi lokar þann 1. febrúar.

Samkvæmt vefmiðlinum 90min er Hólmar Örn undir smásjánni hjá AFC Bournemouth en félagið er í harðri  fallbaráttu sem stendur. Hólmar Örn hefur staðið sig einkar vel með Levski Sofia í búlgörsku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð. Alls hefur hann leikið 15 leiki og skorað þrjú mörk.

Þá var á sínum tíma á mála hjá West Ham United frá árunum 2008-2011, sem einnig leikur í ensku úrvalsdeildinni, án þess þó að leika fyrir félagið. Á þeim tíma fór Hólmar meðal annars á lán til Cheltenham Town í ensku D-deildinni sem og Roeselare í Belgíu. Þaðan lá leið hans til VfL Bochum í Þýskalandi, Rosenborg í Noregi, Maccabi Haifa í Ísrael og loks Levski Sofia í Búlgaríu.

Varnarlína Bournemouth er þunnskipuð þessa dagana og er Eddie Howe, þjálfari liðsins, í leit að nýjum miðverði. Hvort Hólmar Örn verði fyrir valinu verður að koma í ljós en hann yrði þá þriðji Íslendingurinn í úrvalsdeildinni. Fyrir eru þeir Gylfi Þór Sigurðsson hjá Everton og Jóhann Berg Guðmundsson hjá Burnley.

Bournemouth er sem stendur í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×