Erlent

Andrés prins sagður ósamvinnuþýður í rannsókninni á Epstein

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Andrés prins hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu.
Andrés prins hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Dan Kitwood/Getty Images)

Andrés prins, hertoginn af York, hefur reynst afar „ósamvinnuþýður“ í rannsókn bandarískra yfirvalda á barnaníðingnum og viðskiptamanninum Jeffrey Epstein. Þetta hafa erlendir fjölmiðlar eftir saksóknara sem hefur yfirumsjón með rannsókninni.

Andrés prins, sem var góðvinur Epstein um árabil, er í fréttum BBC af málinu sagður hafa sýnt lítinn sem engan samstarfsvilja með saksóknurum og alríkislögreglufulltrúum sem fara með rannsóknina.

Bæði FBI (alríkislögregla Bandaríkjanna) og ákæruyfirvöld í Bandaríkjunum hafa sett sig í samband við lögmenn prinsins, til þess að ná af honum tali. Það virðist þó ekki hafa gengið.

Geoffrey Berman ríkissaksóknari sagði á blaðamannafundi, fyrir utan fyrrum heimili Epstein í dag, að til þessa dags hafi samstarfsvilji Andrésar prins verið enginn.

Andrés hafði áður lýst því yfir að hann væri tilbúinn að veita lögreglu aðstoð við rannsóknina á Epstein, sem nú er látinn.

Jeffrey Epstein var handtekinn í júlí síðastliðinn, en grunur lék á að hann hefði gerst sekur um mansal, kynferðisbrot gegn börnum og vörslu barnakláms.

Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum á Manhattan í New York-borg í ágúst síðastliðnum, þrátt fyrir að hafa átt að vera undir ströngu eftirliti, einmitt vegna þess að talin var hætta á að hann gæti reynt að svipta sig lífi.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.


Tengdar fréttir

Andrés prins hættir opinberum störfum

Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins um að hann hætti að sinna skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna um ófyrirsjáanlega framtíð.

Eyddu upptökum úr klefa Epstein

Upptökum úr öryggismyndavélum í fangaklefa kynferðisafbrotamannsins Jeffrey Epstein var eytt fyrir mistök, að sögn saksóknara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×