Erlent

Fyrr­verandi Belgíu­konungur gengst loks við að hafa eignast barn utan hjóna­bands

Samúel Karl Ólason skrifar
Paola drottning og Albert II.
Paola drottning og Albert II. Getty

Fyrrverandi konungur Belgíu hefur gengist við því að vera faðir 51 árs konu eftir faðernispróf og margra ára málaferli.

Albert annar yfirgaf hásætið og steig til hliðar árið 2013 vegna heilsukvilla. Við það missti hann friðhelgi og listakonan Delphine Boël gat því þvingað hann í faðernispróf.

Í maí í fyrra úrskurðaði dómstóll í Belgíu að konungurinn fyrrverandi skyldi sektaður um fimm þúsund evrur á dag, fyrir að neita að taka prófið eftir að hafa tapað áfrýjun. Það gerði hann svo á endanum.

Delphine Boël.Getty

Orðrómur um að Albert hafi eignast barn utan hjónabands leit fyrst dagsins ljós árið 1999 í bók um eiginkonu hans. Móðir Boël, barónessan Sybille de Selys Longchamps, hefur sagt að hún og Albert hafi átt í ástarsambandi sem hafi staðið yfir frá 1966 til 1984.

Boël hafði haldið því fram opinberlega frá árinu 2005 að hún væri dóttir Alberts en höfðaði ekki mál fyrr en hann steig til hliðar árið 2013.

Lögmaður hennar sagði í viðtalið í gær að það væri mikill léttir að konungurinn hefði viðurkennt að hún væri dóttir hans. Líf hennar hafi verið martröð frá því hún steig fyrst fram og hún hafi höfðað málið vegna barna sinna.


Tengdar fréttir

Nýr konungur í Belgíu

Albert II, konungur Belgíu, tilkynnti sjónvarpsávartpi í dag að hann hyggðist afsala sér völdum á þjóðhátíðardegi Belga, þann 21. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×