Íslenski boltinn

Flestir vilja tólf liða deild og þrefalda umferð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild karla sumarið 2019.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla sumarið 2019. vísir/bára

Mikill meirihluti leikmanna í Pepsi Max-deild karla vill lengja Íslandsmótið. Þetta kemur fram í könnun Leikmannasamtaka Íslands.

Alls tóku 169 leikmenn frá liðunum tólf í Pepsi Max-deild karla þátt í könnuninni, eða um 70% ef miðað er við 20 manna leikmannahópa. Langflestir, eða 86%, vilja að Íslandsmótið verði lengt.

Leikmenn voru einnig beðnir um að svara því hvaða leið væri best að fara við að lengja Íslandsmótið. Tæplega helmingur, eða 47%, vill að liðin í Pepsi Max-deildinni verði áfram tólf en leikin verði þreföld umferð. Leikirnir yrðu þá 33 í stað 22.

Tæplega 24% vilja hafa 14 lið í Pepsi Max-deildinni og leika tvöfalda umferð, rúmlega 17% vilja tíu liða deild með þrefaldri umferð og rúmlega 12% leikmanna vilja hafa 16 liða deild og tvöfalda umferð.

Leikmenn voru einnig spurðir hvort gera þyrfti hlé á deildinni yfir sumarið og hvort endurskoða þyrfti samninga ef mótið yrði lengt.

Tæplega 63% leikmanna þótti mikilvægt eða mjög mikilvægt að gera hlé á deildinni og tæplega 72% telja mikilvægt eða mjög mikilvægt að endurskoða samninga ef mótið yrði lengt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×